349 kynferðisbrot árið 2007, 501 í fyrra

Fjöldi skráðra mála er mestur árið 2014.
Fjöldi skráðra mála er mestur árið 2014. mbl.is/Júlíus

Tilkynntum og kærðum kynferðisbrotum til lögreglu hefur fjölgað á undanförnum tíu árum. Árið 2007 voru þau 349 en samkvæmt bráðabirgðatölum síðasta árs var 501 brot kært eða tilkynnt til lögreglu.

Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Segir þar að samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra, sem hefur yfirumsjón með lögreglukerfinu (LÖKE), hafi samtals 4.183 kynferðisbrot verið tilkynnt eða kærð til lögreglu á tímabilinu 2007–2016.

Mestur er fjöldinn á árinu 2014, en þá er 731 brot skráð í málaskrárkerfi lögreglu. Í svarinu er tekið fram að það ár hafi 165 brot verið í flokknum „kaup á vændi“, vegna átaks í málaflokknum, en slík brot hafi verið á bilinu 4–24 öll hin árin.

„Tilkynnt kynferðisbrot gegn börnum voru einnig óvenjumörg árið 2013 og var um að ræða fleiri eldri mál en áður. Líkleg skýring er mikil umræða sem skapaðist í samfélaginu í framhaldi af umfjöllun fjölmiðla um málaflokkinn,“ segir í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert