Starfsskilyrði lögmanna forkastanleg

Róbert Spanó flutti framsögu á fundinum.
Róbert Spanó flutti framsögu á fundinum. mbl.is/Eggert

Starfsskilyrði lögmanna eru forkastanleg þegar kemur að meðferð innflytjendamála. Þetta sagði Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands, á fundi félagsins á föstudag. Benti hann á að þegar lögmenn fái mál hælisleitenda í hendur sé kærunefnd yfirleitt þegar búin að úrskurða í málum þeirra. Málshöfðunarfresturinn sé þá aðeins tíu dagar.

„Þannig að þetta er útlendingur, sem ekkert þekkir til hér á Íslandi, bláfátækur, og hann á að finna sér lögmann innan tíu daga,“ sagði Reimar og bætti við að lögmenn stæðu, eins og skjólstæðingar þeirra, frammi fyrir aðstæðum sem væru óásættanlegar.

Fundurinn var eins og áður sagði haldinn á föstudag. Daginn áður var samþykkt á Alþingi frumvarp dómsmálaráðherra, þess efnis að kæra myndi ekki fresta réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið, þegar stofnunin hefur metið umsókn hans „bersýnilega tilhæfulausa“ og hann kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki.

Löggjafinn ákveði hvernig mæta skuli bylgjunni

Reimar rifjaði upp að á árum áður hefði skollið á ríkjum Vestur-Evrópu bylgja flóttamanna frá Austur-Evrópu og Sovétríkjunum sálugu. Þeir hefðu fengið inni í samfélögum landanna og meðal annars stuðlað að bættum hagvexti þeirra.

„Nú, þegar þessi bylgja er að fjara út, þá flæðir næsta bylgja að. Hún kemur frá Mið-Austurlöndum og fleiri ríkjum, sem ekki hafa fengið aðild að Evrópusambandinu,“ sagði Reimar.

Það væri þá hlutverk löggjafans að ákveða hvernig bylgjunni yrði mætt, hvort henni væri hleypt inn á grundvelli sömu sjónarmiða og áður ríktu, henni mætt með því að girða fyrir landið, eða þá með blöndu af hvoru tveggja.

Niðurstaðan myndi þá ráðast af mati löggjafans á ávinningi af hvorri leið fyrir sig, borið saman við kostnað.

„Lögmannafélag Íslands getur enga skoðun haft á því hvaða leið beri að velja,“ bætti Reimar við en sagði um leið að réttaröryggi innflytjenda þurfi þó að vera tryggt.

„Og til að tryggja það þarf félagið að ganga fram fyrir skjöldu.“

Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélagsins.
Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélagsins. mbl.is/Styrmir Kári

„Situr í öskutunnu í Róm“

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem lengi hefur barist fyrir réttindum hælisleitenda, sagðist fagna orðum formannsins og hlaut í kjölfarið „heyr, heyr“ úr salnum.

Hann spurði þá Róbert Spanó, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu sem var framsögumaður á fundinum, hvort meðferð íslenskra dómstóla á málum í þessum málaflokki væri til skoðunar hjá Mannréttindadómstólnum.

Nefndi Ragnar sem dæmi mál eitt, þar sem búið er að reka skjólstæðing hans úr landi án þess að málsmeðferð hans sé lokið.

„Hann situr í öskutunnu í Róm á meðan við stöndum fyrir framan dómarann og reynum að reka mál hans fyrir dómi.“

Kollvarpar ekki dómafordæmum

Róbert svaraði því til að hann gæti ekki fullyrt um það. Fram kom þó í máli hans að dómstóllinn væri fullkomlega meðvitaður um stöðu aðildarríkjanna.

Nýjar áskoranir þeirra, hvað varðar stjórn á innflytjendamálum vegna efnahagsástands og fleiri ástæðna, geti þó ekki leitt til þess að afsláttur sé gefinn af þeim skilyrðum sem mannréttindasáttmáli Evrópu geri ráð fyrir.

Sagði Róbert að ef vilji stæði til þess að breyting yrði gerð þar á, yrði hún að eiga sér stað í löggjöf ríkjanna. Dómstóllinn myndi ekki kollvarpa áratugagömlum dómafordæmum.

Róbert hefur verið dómari við MDE frá árinu 2013. Alls …
Róbert hefur verið dómari við MDE frá árinu 2013. Alls eiga 47 dómarar frá aðildarríkjum Evrópuráðsins sæti í Mannréttindadómstólnum. mbl.is/Eggert

Lögmenn gefi af tíma sínum

Róbert sagðist að lokum leyfa sér að fullyrða að lögmenn beri fagsiðferðilega skyldu til að vera vakandi fyrir þessum hópi samfélagsins og gefa honum af tíma sínum, þó að það sé ekki endilega hagkvæmt fjárhagslega. Sagðist hann þá velta því fyrir sér að hvað marki lögmenn gæfu vinnu sína til málaflokksins, einkum á stórum lögmannsstofum.

Loks væri mikilvægt að fram færi kerfisbundin samvinna með stjórnvöldum til að lagfæra það sem betur mætti fara.

„Ég held að íslensk stjórnvöld hljóti að vera að gera það sem þau geta til að sinna þessum málaflokki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert