Aðalmeðferð gæti farið fram í maí

Sakamaður í máli Birnu Brjánsdóttur leiddur fyrir dómara í héraðsdómi …
Sakamaður í máli Birnu Brjánsdóttur leiddur fyrir dómara í héraðsdómi Reykjaness í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óski verjandi ekki eftir frekari gagnaöflun eða ef farið er fram á nýjar rannsóknaaðgerðir má gera ráð fyrir því að aðalmeðferð í morðmáli Birnu Brjánsdóttur fari fram í maí. Þetta sagði Kolbrún Benediktsdóttir, aðstoðarhéraðssaksóknari og saksóknari málsins, í samtali við mbl.is eftir þingfestingu málsins í dag.

Maðurinn sem grunaður er um morðið og hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því 17. janúar heitir Thomas Møller Olsen. Hann neitaði í morgun báðum ákæruliðum málsins, en í þeim fyrri er honum gefið að sök að hafa banað Birnu. Í síðari lið ákærunnar er hann ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa reynt að smygla rúm­lega 23 kg af kanna­bis­efn­um, sem hann hafði komið fyr­ir í ká­etu sinni um borð í græn­lenska tog­ar­an­um Pol­ar Nanoq.

Áður hafði komið fram í fjölmiðlum að maðurinn hefði játað smyglið á kannabisefnunum. Kolbrún segist ekki vita um ástæðu þess að hann neiti því núna. „Hvað það er sem hann er að neita, gæti verið liður í verknaðarlýsingunni. Ég átta mig ekki á því, en það mun væntanlega skýrast í næstu fyrirtöku í málinu,“ segir Kolbrún.

Verjandi Olsen óskaði eftir því að fá frest til að fara yfir gögn málsins og mögulega skila greinargerð. Fallist var á það og verður næsta fyrirtaka málsins 25. apríl. Kolbrún segir að komi ekkert óvænt upp á gæti aðalmeðferð verið ákveðin þá. „Ef ekki er gerð krafa um frekari rannsóknaraðgerðir eða gagnaöflun þá má reikna með að dagur fyrir aðalmeðferð verði ákveðinn í næstu fyrirtöku,“ segir hún og bætir við: „Þegar maðurinn er í gæsluvarðhaldi er þessu flýtt eins og hægt er. Mér finnst ekki ólíklegt að reynt verði að horfa til maí varðandi aðalmeðferð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert