Óviðunandi framúrkeyrsla

Kostnaður við gerð Vaðlaheiðarganganna hefur rokið upp úr öllu valdi.
Kostnaður við gerð Vaðlaheiðarganganna hefur rokið upp úr öllu valdi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þessi framúrkeyrsla úr áætlunum er óviðunandi. Hún virðist fyrst og fremst stafa af ónógri greiningu á jarðfræði,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, um þau áform að rík­is­sjóður muni lána Vaðlaheiðargöng­um 4,7 millj­arða til að ljúka gangagerðinni.

Á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku var samþykkt að leggja fram frumvarp sem heim­ilar þessa fjár­hæðar­hækk­un eins fljótt og unnt er. 

Katrín bendir á að margar opinberar framkvæmdir hafi farið fram úr áætlunum. Í upp­haf­leg­um áætl­un­um hafi verið gert ráð fyr­ir að ófyr­ir­séður kostnaður vegna ganganna gæti numið allt að 7% af fram­kvæmda­áætl­un. Áætlaður um­fram­kostnaður vegna þeirra tafa sem orðið hafa nem­ur hins veg­ar um 44% af áætluðum stofn­fram­kvæmda­kostnaði miðað við verðlag upp­haf­legr­ar lán­veit­ing­ar. 

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert

Framkvæmdin er einkaframkvæmd í samstarfi við ríkið. Katrín bendir á að í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur boðað auknar einkaframkvæmdir í samgöngumálum gerir hún athugasemdir við þessi vinnubrögð sem þarf að skoða nákvæmlega og rýna frekar í.

Samkvæmt umferðarspám sem lágu fyrir fyrir framkvæmdina er umferðin þegar orðin meiri en spár gerðu ráð fyrir. Umferðinni var meðal annars ætlað að standa undir framkvæmdinni. 

Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, þingmaður Pírata.
Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

 „Subbulega að þessu staðið“

„Ég fagna þessari framkvæmd sem slíkri en það var subbulega að þessu staðið,“ segir Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, oddviti Pírata í norðausturkjördæmi. Hann mun ekki greiða atkvæði gegn frumvarpi um fjár­hæðar­hækk­un til Vaðlaheiðarganga. 

Einar bendir á að brýnt sé að vinnubrögðin við áætlanir um Vaðlaheiðargöngin endurtaki sig ekki. Hann segist treysta stofnunum ríkisins sem meta það sem svo að skaðinn sé meiri ef göngin standa ókláruð. „Við höfum ekkert annað val,“ segir Einar um aðkomu ríkisins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert