Ferðamenn fastir í bílum á Fjarðarheiði

Bylur er nú á Fjarðarheiðinni og þæfingsfærð.
Bylur er nú á Fjarðarheiðinni og þæfingsfærð. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Ferðamenn sitja nú fastir í bílum sínum á Fjarðarheiði, en Norræna kom til landsins í morgun og er færðin yfir heiðina orðin erfið fyrir vanbúna bíla.

Að sögn lögreglunnar á Austurlandi er bylur á Fjarðarhæðinni og þæfingsfærð. Ekki er enn búið að kalla út björgunarsveitir, en bíll frá Vegagerðinni er á leiðinni upp á heiðinni og mun hann kanna hvort ferðalangarnir þurfi frekari aðstoðar við.

Lögregla hvetur þá sem eru á vanbúnum bílum til að halda ekki yfir Fjarðarheiðina að svo stöddu.

Á Austurlandi eru snjóþekja og víða snjókoma að því er segir á vef Vegagerðarinnar. Ófært er á Breiðdalsheiði, Öxi og Mjóafjarðarheiði. Með suðausturströndinni er snjóþekja.

Á norðanverðu Vesturlandi er víða snjóþekja.

Þæfingur er víða á fjallvegum á Vestfjörðum sem og éljagangur en mokstur stendur yfir. Þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði. Ekki er búið að skoða ástand á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði. Ófært er norður í Árneshrepp á Ströndum.

Það er snjóþekja víða á Norðurlandi vestra og snjóþekja og éljagangur víða á Norðausturlandi.

Vegir eru hins vegar mikið til auðir á Suðurlandi en hálkublettir eru á Hellisheiði, Þrengslum, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert