Geitburður og litlir ungar í Laugardalnum

Vorið er komið í Húsdýragarðinum.
Vorið er komið í Húsdýragarðinum. Ljósmynd/Húsdýragarðurinn

Vorið er mætt í Laugardalinn í Reykjavík en huðnurnar eru nefnilega byrjaðar að bera og krúttlegheitin því í hámarki í fjárhúsinu. Fjórar huðnur hafa borið samtals átta kiðlingum, tvær huðnur og sex hafrar. 

Faðir þeirra er hafurinn Djákni sem þrátt fyrir ríkidæmi sitt lætur sér fátt um finnast og slakar á á meðan á öllu þessu stendur.  Fyrstu kiðlingarnir komu í heiminn síðastliðinn 6 apríl og það var huðnan Frigg sem reið á vaðið og nú eru tvær óbornar, þær Fiða og Ronja. 

Ungarnir eru fyrstu vikurnar undir hitaperu.
Ungarnir eru fyrstu vikurnar undir hitaperu. Ljósmynd/Húsdýragaðurinn

Þessa daganna berast líka tíðindi úr smádýrahúsinu því þar hafa ungar landnámshænsna verið að skríða úr eggjum. Þeir eru litfagrir eins og landnámshænsni eru þekkt fyrir og eyða fyrstu vikunum undir hitaperu svo þeim verði nú ekki kalt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert