Mistök á mistök ofan eftir skurðaðgerð

Pabbi Hafþórs fór í aðgerð á Landspítalanum og var nokkrum …
Pabbi Hafþórs fór í aðgerð á Landspítalanum og var nokkrum dögum síðar fluttur norður til Akureyrar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innan íslenska heilbrigðiskerfisins er alvarlegur samskiptavandi þar sem sjúklingar líða fyrir allt of mikið álag og skipulagsleysi. Þetta segir Hafþór Magni Sólmundsson, en faðir hans varð fyrir hrinu mistaka eftir aðgerð sem hann fór í vegna illkynja æxlis.

Hafþór rakti á Facebook söguna frá því að faðir hans fór í aðgerðina í síðustu viku og þangað til hann kom til baka til Akureyrar á mánudaginn, en hann lagðist í framhaldinu inn á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Á leiðinni norður var faðir Hafþórs sendur með almennu flugi í stað sjúkraflugs vegna reglu um að rétt til sjúkraflugs hefði fólk aðeins í fjóra daga frá aðgerð. Faðir hans gat hins vegar ekki farið norður vegna verkja fyrr en á fimmta degi. Var flugferðin punkturinn yfir i-ið að sögn Hafþórs og ákvað hann því að taka söguna saman og birta opinberlega.

Gleymdist að taka af sérstaka aðgerðarsokka

Fyrstu mistökin að sögn Hafþórs voru þau að faðir hans var ekki tekinn úr svokölluðum flugsokkum, sem hann fór í fyrir aðgerðina. Segir Hafþór að sokkarnir séu notaðir sem forvörn fyrir blóðflæði og bjúg við aðgerð, en að í framhaldinu megi ekki vera lengi í þeim eða sofa íklæddur sokkunum. Faðir hans var aftur á móti í sokkunum í tvo og hálfan sólarhring. „Það hreinlega gleymdist að taka hann úr þeim,“ segir Hafþór í færslunni og bætir við í samtali við mbl.is að hann hafi fyrir tilviljun uppgötvað þetta sjálfur.

Enginn morgunmatur og öndunarflauta gleymdist

Þá rifjar Hafþór upp að á degi tvö eftir aðgerðina hafi gleymst að gefa pabba hans morgunmat, þrátt fyrir að mikilvægt hafi verið að koma meltingunni og þörmunum af stað til að virkja svokallaðan stóma. Þá átti faðir hans að fá flautu eftir aðgerðina til að koma önduninni í eðlilegt horf að nýju og passa upp á að vökvi færi ekki í lungun. Á degi tvö uppgötvaðist að faðir hans hafði enga flautu fengið. Það uppgötvaðist þegar hjúkrunarfræðingur minnti hann á að blása í flautuna.

Með opin skurðsár, stóma og í hjólastól einn á flugvellinum

Alvarlegasta atriðið að sögn Hafþórs var þó flutningurinn norður. Fyrst átti hann að fara með sjúkraflugi, en þar sem það tafðist vegna veikinda pabbans komu reglur heilbrigðiskerfisins í veg fyrir að hann fengi slíkt flug og átti þess í stað að fara með almennu flugi. Á mánudaginn þegar komið var að flugferðinni sem átti að vera klukkan 16:00 kom hins vegar enginn til að sækja pabbann. Tíu mínútum fyrir flugið lét hann vita að enginn væri kominn og kom þá í ljós að það gleymdist að kalla til menn í flutninginn. Þar með missti hann af fluginu, en fór í staðinn í flug klukkan sjö um kvöldið.

Hafþór segir að þar hafi hann verið skilinn eftir úti á flugvelli með opin skurðsár, stóma og í hjólastól í um klukkustund eftir að komast í almenna flugið. Þrátt fyrir að vera treyst í almennt flug var búið að ítreka við hann að hann mætti ekkert reyna á sig, hvorki ryksuga né halda á venjulegum poka. Hafþór segir það því skjóta skökku við að skilja hann eftir í hjólastól einan úti á flugvelli, enda hafi fljótlega komið í ljós að hann ætti erfitt með að fara upp fyrstu brekkuna. Vinakona fjölskyldunnar hafi verið á flugvellinum og hafi hún aðstoðað hann.

Gleymdist líka að panta sjúkrabíl á Akureyri

Þegar komið var á Akureyri kom svo í ljós að enginn sjúkrabíll var á flugvellinum. Hafþór segir að það hafi einnig gleymst að biðja um bílinn þar. Þegar komið var á sjúkrahúsið fyrir norðan kom svo í ljós að engar læknaskýrslur eða pappírar um lyfjagjöf hefðu fylgt pabba hans.

Álagið og starfsumhverfið fáránlegt

„Þarna virðist vera alvarlegur samskiptavandi og skortur á að sjúklingum sé fylgt eftir af ábyrgum aðila Landspítalans. Við getum ekki annað en þakkað því starfsfólki sem reyndi sitt besta til að hlúa að kallinum alla jafna. Álagið og starfsumhverfið sem þessu indæla fólki og sjúklingum er boðið upp á er fáránlegt,“ segir Hafþór í færslunni.

Hann segir við mbl.is að þessum samskiptavanda hafi fylgt hrina mistaka og spyr hver eigi að axla ábyrgð á því. „Hvernig er hægt að treysta á heilbrigðiskerfi sem gerir svona mistök?“ Hafþór segist skora á ríkisstjórnina að setja heilbrigðiskerfið í forgang,

Pabbi Hafþórs er nú á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, en Hafþór segir hann hafa verið úrvinda eftir flutninginn. „Hann er allur að koma til.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert