Þristur sækir landið heim

Gamli tíminn. Flugvélin er af gerðinni Douglas DC-3 og var …
Gamli tíminn. Flugvélin er af gerðinni Douglas DC-3 og var hún fyrst í eigu flugfélagsins American Airlines. Ljósmynd/Breitling/Katsuhiko Tokunaga

„Allt þetta samfélag fylgist með ferð vélarinnar. Það væri mjög gaman að hitta þristinn á lofti og fylgja honum inn til lendingar,“ segir Tómas Dagur Helgason, flugstjóri og formaður Þristavinafélagsins, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar hann til þess að í ágúst næstkomandi, að líkindum 26. dag þess mánaðar, kemur hingað til lands flugvél af gerðinni Douglas DC-3. Er vélin í hnattflugi og lýkur ferðalaginu um miðjan september.

Flugvélin kom út úr verksmiðju Douglas Aircraft á Long Beach í Kaliforníuríki árið 1940 og er hún því 77 ára gömul. Fyrsti eigandi hennar var bandaríska flugfélagið American Airlines, en árið 1942 fór flugvélin í þjónustu hersins sem notaði hana til ársins 1944. Svissneski úraframleiðandinn Breitling er núverandi eigandi vélarinnar, en fyrirtækið keypti þristinn árið 2008.

Hnattflugið hófst í mars síðastliðnum þegar lagt var af stað frá Genf í Sviss. Hefur vélin nú meðal annars flogið yfir Balkanríki, Mið-Austurlönd, Indland og Suðaustur-Asíu. Sem stendur er hún í reglubundnu viðhaldi í Singapúr og heldur til Malasíu 21. þessa mánaðar.

Flugið líkt og það var í árdaga

„Svona flug er mikil áskorun fyrir bæði menn og tæki. Þeir hafa vafalaust búnað til að fljúga blindflug, en það er t.a.m. enginn afísingarbúnaður eða veðurradar í þessum vélum,“ segir Tómas Dagur og heldur áfram: „Það er því mjög margt sem þarf að horfa til og skipuleggja áður en farið er í svona langa ferð.“

Þristavinir. Flugstjórarnir Tómas Dagur Helgason (t.v.) og Hallgrímur Jónsson sjást …
Þristavinir. Flugstjórarnir Tómas Dagur Helgason (t.v.) og Hallgrímur Jónsson sjást hér við hina söguríku flugvél Pál Sveinsson. mbl.is/RAX


Flugvélin Páll Sveinsson er af gerðinni Douglas C-47A, sem er herflutningaútgáfa DC-3. Hún er nokkrum árum yngri en Breitling-þristurinn, framleidd árið 1943 og kom ný til landsins til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Síðan þá hefur vélinni verið flogið á hverju einasta ári, fyrir utan eitt þegar hún var í tímafrekri viðgerð. Flugtímarnir hafa hins vegar ekki verið margir undanfarin ár, eða einhvers staðar á bilinu 10 til 20 flugtímar á hverju sumri. Tómas Dagur segir Pál Sveinsson enn vera í vetrargeymslu í Flugsafni Íslands á Akureyri.

Aðspurður segir hann það vera einstakt að fljúga þristinum og fá þannig að upplifa flugið eins og það var í árdaga. „Flugvélin er í mjög góðu standi og verður væntanlega dregin út í byrjun maí, sett í gang og hreyfð aðeins,“ segir hann og bætir við: „Það er rosalega gaman að fljúga henni enda mjög þæg og góð þrátt fyrir að vera svifasein og þung í stýri, en menn læra nú bara á það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert