Hörð gagnrýni lækna

Formaður Félags barnalækna telur að nýja kerfið sé vanhugsað.
Formaður Félags barnalækna telur að nýja kerfið sé vanhugsað. Morgunblaðið/Ómar

Formenn Félags barnalækna og Læknafélags Reykjavíkur gagnrýna harðlega nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu og nýtt tilvísanakerfi fyrir börn til sérfræðilækna í samtölum við Morgunblaðið í dag. Nýju kerfin taka gildi á mánudag, 1. maí.

Börn sem þurfa á sérfræðilæknisþjónustu að halda þurfa frá og með mánudeginum að fá tilvísun frá heilsugæslulækni eða heimilislækni og þurfa þannig ekki að greiða fyrir sérfræðiþjónustuna.

Valtýr Stefánsson Thors, formaður Félags barnalækna, segir að álagið á bráðadeild Barnaspítala Hringsins með nýju tilvísunarkerfi eigi eftir að stóraukast, því þeir sem ekki geti beðið vikum saman eftir að komast að hjá sérfræðingi með barn sitt, muni sækja á bráðamóttöku barnaspítalans. „Núna eru á milli 15 og 16 þúsund komur á ári á barnaspítalann og við teljum að nýja tilvísanakerfið muni fjölga komum um 25 til 30% á ári,“ segir Valtýr.

Arna Guðmundsdóttir, formaður Læknafélags Reykjavíkur, kveðst telja að nýjar reglur um greiðsluþátttöku og nýtt tilvísanakerfi, séu á skjön við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. „Stjórnarsáttmálinn hófst á fögrum fyrirheitum um jafnt aðgengi allra að öruggri og góðri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag. Kerfið verður þannig, frá næsta þriðjudegi, að sjúklingurinn þarf að borga háa upphæð fyrst, allt að 24.600 krónur. Þetta getur reynst þeim efnaminni mjög erfitt. Ég nefni sem dæmi skjólstæðinga geðlækna, sem er jú sá hópur sem ríkisstjórnin ætlaði að vernda sérstaklega,“ segir Arna. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert