Sungu fyrst í Bárubúð fyrir 100 árum

Fyrsta myndin. Karlakór KFUM syngur við Ölfusárbrú sumarið 1922, fimm …
Fyrsta myndin. Karlakór KFUM syngur við Ölfusárbrú sumarið 1922, fimm árum eftir stofnun hans. Þetta er elsta ljósmynd sem til er af kórnum. Einsöngvari þarna er Símon Þórðarson frá Hól en söngstjóri Jón Halldórson.

Þeir voru verslunarmenn, klæðskerar, rakari, bólstrari, bakari, gullsmiður, vélstjóri, prentari, málari og pípari, sem fylltu hóp þeirra 20 ungu manna sem stofnuðu kór fyrir heilli öld. Í þeim hópi var Vestfirðingur, Skagfirðingar og Sunnlendingar. Og enn syngur kórinn, þó úr öðrum börkum berist söngurinn.

Þetta voru kornungir menn sem teljast stofnfélagar karlakórsins. Á fyrstu tónleikunum, sem haldnir voru í Bárubúð í Reykjavík þann 25. mars árið 1917, stóðu 20 ungir menn á palli og meðalaldur þeirra var 25 ár, sá yngsti var 17 ára, sá elsti var 39 ára og söngstjórinn, Jón Halldórsson, var aðeins 27 ára. Sex þeirra voru fæddir Reykvíkingar, sjö voru af Vesturlandi, einn Vestfirðingur, tveir Skagfirðingar og fjórir Sunnlendingar. Flestir þeirra gátu talist verslunarmenn en aðrir iðnaðarmenn; tveir voru klæðskerar, einn rakari, bólstrari, bakari, gullsmiður, vélstjóri, prentari, málari og pípari. Kórfélagar endurspegluðu því vel þær starfsgreinar sem bæjarbúar skipuðu,“ segir Arinbjörn Vilhjálmsson, formaður Karlakórsins Fóstbræðra, þegar hann rifjar upp sögu kórsins, en Fóstbræður minnast þessara fyrstu tónleika á vortónleikum sínum nú hundrað árum síðar.

„Allir voru þessir ungu menn sem stofnuðu kórinn félagar í KFUM og því hét kórinn Karlakór KFUM. En það var ekki fyrr en tíu árum síðar sem söngmenn fengu inngöngu í kórinn án þess að vera félagar í móðurfélaginu. Tveimur áratugum síðar hættu þeir að kenna sig við KFUM og tóku upp nafnið Fóstbræður, eftir kvartettinum vinsæla sem Jón Halldórsson söng í áður en hann tók við stjórn karlakórsins.“

Fyrsta auglýsingin. Ungu mennirnir sungu í Bárubúð.
Fyrsta auglýsingin. Ungu mennirnir sungu í Bárubúð.


Skarphéðinn í brennunni lifir

Arinbjörn segir að það efni sem kórinn hafi flutt á þessum fyrstu almennu tónleikum sínum hafi verið afrakstur fjögurra mánaða æfinga undir stjórn Jóns Halldórssonar, en fyrsta æfing kórsins fór fram 18. nóvember í kjallara KFUM-heimilisins við Amtmannsstíg.

„Á efnisskrá voru níu sönglög en einnig léku þeir Emil Thoroddsen og Loftur Guðmundsson þrjú lög á píanó og harmóníum.

Fyrsta lagið sem hljómaði á þessum fyrstu tónleikum var lag Helga Helgasonar við texta Hannesar Hafstein „Skarphéðinn í brennunni“ sem hefst á orðunum „Buldi við brestur og brotnaði þekjan“, segir Arinbjörn og bætir við að Gamlir Fóstbræður syngi einmitt þetta fyrsta lag kórsins á vortónleikunum núna. „Hin lögin sem ungu stofnfélagarnir sungu fyrir hundrað árum, voru „Er svellur stríð“ eftir Grunholtzer, „Maalet“ eftir Winter-Hjelm, sænska þjóðlagið „Þú söguríka Svíabyggð“, „Heiðstirnd bláa“ eftir Wetterling, „Æðir stormur“ eftir Dürrner, „Söknuður“eftir Myhrberg, íslenska þjóðlagið „Svíalín og hrafninn“ sem margir þekkja sem Hrafninn flýgur um aftaninn, og að lokum „En glad trall“ eftir Körling. Efnisvalið er því norrænt og þýskt í hæsta máta þar sem þeir Wetterling, Myhrberg og Körling voru Svíar, Winter-Hjelm norskur og þeir Dürrner, Händel, Schumann og Schubert af þýsku bergi brotnir. Grunholtzer er sennilega þýskur, þó ekki sé hægt að grafa upp hvers lenskur hann var.“

Fjórðu og síðustu vortónleikar Karlakórsins Fóstbræðra þetta árið verða í …
Fjórðu og síðustu vortónleikar Karlakórsins Fóstbræðra þetta árið verða í dag, laugardag, kl. 15 í Norðurljósasal Hörpu. Ljósmynd/Karl Petersson


Hornablástur, söngur og bíó

Þegar Arinbjörn skoðaði aldargamla forsíðu Morgunblaðsins með auglýsingunni um þessa fyrstu tónleika kórsins, var ekki síður áhugavert að skoða aðrar auglýsingar, sem segja margt um mannlífið fyrir heilli öld í Reykjavík.

„Það var ýmislegt um að vera, þarna er auglýsing um kvöldskemmtun í Goodtemplarhúsinu með einsöng, upplestri og hornablæstri, í Gamla bíói var sýnd franska bíómyndin Kýlið, í Nýja Bíói danska bíómyndin Skrifarinn, Biblíufyrirlestur var í Betel og í Iðnaðarmannahúsinu hélt Páll Eggert Ólason fyrirlestur um Jón lærða og samtíma hans,“ segir Arinbjörn og bætir við að þó hafi ekki verið hátíðarbragur yfir bænum þennan sunnudag, því hvarvetna var flaggað í hálfa stöng þar sem Geir Zoëga kaupmaður hafði látist um nóttina, tæplega níræður.

„Hann var brautryðjandi á mörgum sviðum og einn „merkasti borgari og helsta stoð bæjarfélagsins“ eins og segir í blaðaumfjöllun um lát hans.“

Arinbjörn og Frú Vigdís Finnbogadóttir að loknum afmælistónleikum sl. haust …
Arinbjörn og Frú Vigdís Finnbogadóttir að loknum afmælistónleikum sl. haust þegar kórinn varð 100 ára. Arinbjörn færði henni silfurnisti með Fóstbræðrahörpu sem er félagsmerki kórsins. Vigdísi voru þakkaðar samverustundir í gegnum árin, en m.a. fylgdi kórinn henni tvisvar vestur um haf og söng á viðburðum þar sem hún var viðstödd.


Kostaði eina krónu inn

En það er líka gaman að skoða Morgunblaðið sem kom út á þriðjudeginum eftir tónleika, því þar kemur fram að kórsöngurinn „þótti hin bezta skemmtun“ og yrði hún endurtekin sama kvöld „þar eð margir þurftu frá að hverfa í fyrra sinnið“.

„Í auglýsingunni segir að það kosti eina krónu inn á tónleikana, og samkvæmt reikningum kórsins frá þessum tíma kemur fram að tekjur af tónleikunum voru 490 krónur, af því má ráða að hátt í 500 manns hafi hlýtt á sönginn á tvennum tónleikum. Það er harla gott í fimmtán þúsund manna bæ, það samsvarar sjö þúsund manns í Reykjavík samtímans.“

Arinbjörn segir að húsið Bárubúð þar sem fyrstu tónleikarnir fóru fram, hafi staðið þar sem nú stendur Ráðhús Reykjavíkur og samkomusalurinn hefur verið þar sem nú er aðalinngangur ráðhússins. „Húsið, Vonarstræti 11, var reist á uppfyllingu í Tjörninni árið 1899 af sjómannafélaginu Bárunni. Það var tvílyft timburhús, klætt bárujárni og var eitt helsta samkomuhús bæjarins á fyrri hluta aldarinnar, en það var rifið árið 1945. Eftir það var lóðin nýtt sem bílastæði þar til að ráðhúsið var reist undir lok aldarinnar.“

Við sama tækifæri söng kórinn fyrir nýja forsetafrú Elizu Reed, …
Við sama tækifæri söng kórinn fyrir nýja forsetafrú Elizu Reed, og fóru allir á hnén. Árni Harðarson stjórnandi hafði fullt vald á körlunum.


Lokatónleikar í dag í Hörpu

Fjórðu og síðustu vortónleikar Karlakórsins Fóstbræðra þetta árið verða í dag, laugardag, kl. 15 í Norðurljósasal Hörpu. Á efnisskránni verða íslensk og erlend verk samin fyrir karlakóra, einsöngvari á tónleikunum verður Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran og Steinunn Birna Ragnarsdóttir leikur á píanó. Gamlir Fóstbræður, kór fyrrverandi félaga Fóstbræðra, koma einng fram.

Kórinn frumflytur nýja tónsetningu Áskels Mássonar við kvæði Hannesar Hafsteins, Storminn. Það er skemmtileg tilviljun að í tímaritinu Verðandi sem kom út 1882 birtust í fyrsta skipti nokkur ljóða Hannesar Hafstein. Eitt þessara ljóða var Stormur en annað ljóð var „Skarphéðinn í brennunni“ sem var fyrsta lagið á fyrstu tónleikum kórsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert