Stakk mann og lét millifæra milljón

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur úrskurðað karlmann í áframhaldandi gæsluvarðhald til 24. maí en hann er grunaður um að hafa ógnað manni með hnífi til að millifæra á sig rúmlega 1 milljón króna. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk þann 31. mars tilkynningu um að maður hefði verið rændur við Skautahöllina í Laugardal. Árásarmaðurinn neyddi manninn með hníf að vopni til að millifæra af reikningi í gegnum síma á reikning sinn.

Maðurinn sem ráðist var á segir að sér hafi verið ógnað með hnífi sem hafi m.a. verið borinn að hálsi hans. Er hann neitaði að millifæra stakk maðurinn hann í handarbakið með hnífnum. Árásarmaðurinn hótaði því að hann myndi skera hann, stinga og nauðga honum ef hann myndi segja frá árásinni.

Millifærði í tveimur færslum

Maðurinn sagðist hafa millifært rúmlega eina milljón króna á árásarmanninn í tveimur færslum. Árásarmaðurinn hafi auk þessa alls rænt af honum bakpoka með fartölvu sem og síma. 

Maðurinn sem fyrir árásinni varð gat gefið lögreglu lýsingu á árásarmanninum, m.a. tattúi sem hann bar á annarri hendi.

Fyrr þennan dag segir lögreglan að maður hafi séð mann reyna að brjótast inn í bíl sinn. Talið er að um sama mann sé að ræða. 

Lét millifæra á eigin reikning

Lögreglan komst fljótt á spor árásarmannsins þar sem hann hafið látið millifæra peningana á sinn eigin reikning. Hann var handtekinn í Kópavogi um kvöldið. Við leit í bíl hans fannst bakpokinn, síminn og fartölvan sem hann hafði tekið ófrjálsri hendi við Skautahöllina.

Í greinargerð saksóknarfulltrúa um málið segir að maðurinn neiti að tjá sig og gefa skýringar á ferðum sínum. 

Saksóknarfulltrúi, sem fór fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum, segir að hann sé grunaður um brot sem geti varðað allt að sextán ára fangelsi. Hann fór fram á að maðurinn yrði áfram í haldi á grundvelli almannahagsmuna. 

„Einnig sé það mat héraðssaksóknara að óeðlilegt sé að kærði gangi laus þar sem hann hafi framið gróft ránsbrot og að réttarvitund almennings krefjist þess að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi allt þar til ákæra verði gefin út og dómur fellur vegna eðlis brotsins,“ segir í greinargerð saksóknarfulltrúans.

Með langa brotasögu

Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu. Hann hlaut níu mánaða fangelsisdóm árið 2014 fyrir rán. Þá hlaut hann tveggja mánaða dóm árið 2016 fyrir vörslu fíkniefna og fleiri brot. Brotaferill hans er enn lengri.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 1. apríl. 

Hæstiréttur féllst á föstudag á að maðurinn verði áfram í varðhaldi til 24. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert