Lýðheilsumál að fólk geti framfleytt sér

Skagamenn létu rigninginuna ekki stoppa sig frá því að mæta …
Skagamenn létu rigninginuna ekki stoppa sig frá því að mæta í kröfugöngu í dag. Ljósmynd/Verkalýðsfélag Akraness

Það er þjóðarskömm að launataxtar á íslenskum vinnumarkaði dugi ekki fyrir lágmarksframfærslu. Þetta sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í 1. maí ávarpi sínu. Það sé lýðheilsumál að laun dugi þannig að fólk geti framfleytt sér og sinni fjölskyldu og haldið mannlegri reisn.

Barátta verkalýðsfélaga felist þó ekki bara í því að semja um kaup og kjör, alltof algengt sé að verið sé að brjóta á réttindum launafólks. „Trúið mér að hafi ég haft  vafa um tilvist og tilgang stéttarfélaga þegar ég tók við formennsku í Verklýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003 þá hvarf sá vafi strax,“ sagði Vilhjálmur. 

Innheimt 400 milljónir vegna kjarasamningsbrota

„Á þeim 13 árum sem eru liðinn frá því að ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness höfum við innheimt yfir 400 milljónir vegna kjarasamningsbrota á okkar félagssvæði. Já, takið eftir, 400 milljónir og eru þetta allt brot þar sem atvinnurekendur hafa sagt við okkar félagsmenn: við erum að greiða ykkur rétt og eftir gildandi kjarasamningum. En eftir skoðun félagsins á öllum þessum málum kom í ljós að slíkt var ekki rétt og því hafa fjölmargir atvinnurekendur þurft að leiðrétta og lagfæra laun sem nema áðurnefndri upphæð.“

Sagði Vilhjálminn leikinn á milli atvinnurekenda og launamannsins vera ójafnan þegar upp komi ágreiningur um kaup og kjör. „Því er gríðarlega mikilvægt að launafólk sé aðilar að öflugum stéttarfélögum sem hafa kjark og þor til að standa uppi í hárinu á sterkum atvinnurekendum sem oft á tíðum hafa lífsviðurværi heilu byggðarlaganna í hendi sér.“

Nefndi Vilhjálmur sem dæmi að Verkalýðsfélag Akraness hefði unnið tvö mál fyrir dómstólum á undanförnum mánuðum, enda vílaði félagið ekki fyrir sér að fara með mál fyrir dómstóla þegar svo bæri undir. „Annað málið skilaði yfir 30 milljónum til þeirra starfsmanna sem heyrðu undir dóminn og hitt um 12 milljónum. Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að horfa ekki í krónur og aura við að verja réttindi okkar félagsmanna og sem dæmi er félagið í dag með þrjú mál fyrir dómstólum þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir okkar fólks eru undir.“

Eins og skýstrókar sem soga aflaheimildir í burtu

Vilhjálmur gerði einnig þær hugmyndir HB Granda að hætta bolfiskvinnslu á Akranesi að umtalsefni. „Hver hefði trúað því fyrir nokkrum áratugum síðan að árið 2017 stefni í það að landvinnslu á sjávarafurðum verði hætt á Akranesi,“ sagði hann.

Það sé dapurt og nöturlegt til þess að vita hvernig fyrirkomulag á stjórnun fiskveiða „hafi farið með hinar dreifðu byggðir þessa lands þar sem örfáir einstaklingar hafa getað tekið ákvörðun um að færa aflaheimildir á milli landsvæða eða til höfuðborgarsvæðisins, tekið lífsviðurværi af fiskvinnslufólki og sjómönnum og skilið heilu byggðarlögin eftir rúst. „Með öðrum orðum farið um eins og skýstrókar og selt eða sogað allar aflaheimildir í burtu því þeir vilja græða meira í dag en í gær!  

Ég vil rifja það upp að árið 2002, áður en Haraldur Böðvarsson sameinaðist Granda, þá var Akranes þriðja stærsta verstöð landsins og á Akranesi var landað yfir 167 þúsund tonnum. Haraldur Böðvarsson var með um 350 manns á launaskrá og greiddi yfir 2 milljarða í laun og var stærsti launagreiðandi á Norðvesturlandi.

Því miður stefnir æði margt í að verið sé að skrifa síðasta kaflann hvað varðar vinnslu á sjávarafurðum hér á Akranesi því mér sýnist að forsvarsmenn HB Granda ætli sér að leggja niður landvinnsluna og með því mun yfir 100 ára sögu fiskvinnslu ljúka. Það er svo sorglegt ef upp undir 100 manns missa vinnuna og margir þeirra hafa helgað líf sitt fyrirtækinu og eru með tugi ára í starfsreynslu. Það er stórhættulegt ef þessi gríðarlega þekking hjá þessu fiskvinnslufólki tapast og þráðurinn rofnar hvað varðar vinnslu á sjávarafurðum hér á Akranesi,“ sagði Vilhjálmur í ávarpi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert