Grunaður leigusvikari í varðhaldi

Lögreglan segir að um brotahrinu sé að ræða og að …
Lögreglan segir að um brotahrinu sé að ræða og að stöðva verði manninn með því að setja hann í varðhald. Hæstiréttur hefur fallist á þau sjónarmið. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir manni sem grunaður er um fjölmörg svik á leigumarkaði. Maðurinn auglýsti húsnæði til leigu á Bland.is. Hann var hins vegar ekki réttmætur eigandi íbúðanna. Með þessum hætti hafði hann milljónir af grunlausum leigjendum.

Héraðsdómur kvað upp sinn úrskurð 2. maí og skaut maðurinn niðurstöðunni til Hæstaréttar sem nú hefur staðfest ákvörðun héraðsdóms. Maðurinn var fyrst úrskurðaður í varðhald 6. apríl til 2. maí. Í kjölfar þess bárust lögreglu enn fleiri kærur vegna hátternis mannsins. 

Vildi ekki í varðhald vegna veikinda

Maðurinn hélt því fram að honum ætti ekki að vera gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna þess að hann sé með háan blóðþrýsting og sykursýki. Þá hefur hann lagt fram læknisvottorð um að unnusta hans sé barnshafandi og að um áhættu á meðgöngu sé að ræða. Einnig hefur maðurinn bent á að hann eigi sex ára gamalt barn. Ekkert af þessu getur leitt til þess að kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald verði synjað og féllust bæði héraðsdómur og Hæstiréttur á þau sjónarmið.

Lögregla telur vera sterkan rökstuddan grun um að maðurinn hafi svikið út fé af fólki með blekkingum og því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi til að lögregla geti lokið málum með útgáfu ákæru og meðferð málsins fyrir dómi. Um sé að ræða fjársvik sem beinist að fólki sem oft sé í erfiðri aðstöðu vegna erfiðs leigumarkaðar. Það er mat lögreglu að um sé að ræða brotahrinu sem þurfi að stöðva. Maðurinn sé undir sterkum rökstuddum grun um aðild að málunum. Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu í tengslum við fjársvik og hefur hann hlotið dóma vegna fjársvika hér á landi og í Danmörku.

Með vísan til brotaferils mannsins á undanförnum vikum er það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að hann muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.

Rannsókn málsins mun vera á lokstigi og ákæra gefin út á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert