Um helmingur fjarvista af völdum streitu

Slökun og hugleiðsla er nauðsynleg í baráttunni við streitu segir …
Slökun og hugleiðsla er nauðsynleg í baráttunni við streitu segir Ólafur Þór Ævarsson mbl.is/Eggert

Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir segir veikindanærveru falinn vanda sem þurfi að taka jafn alvarlega og veikindafjarveru. Streita í samskiptum verður til umræðu á málþingi Streituskóla forvarna 11. maí.

Streita og áhrif hennar er mikilvægt og þarft umræðuefni. „Við höfum því boðað til málþings um samskiptastreitu þar sem við beinum sjónum okkar sérstaklega að starfsfólki í verslunar- og þjónustustörfum. Það er falinn áhættuþáttur í samskiptum sem getur verið álagsvaldandi,“ segir Ólafur Þór og bætir við að það geti verið álag að vera í framvarðarlínunni þegar kemur að samskiptum. Auk þess sem samskipti á heimili geti aukið álagið.

„Við höldum málþing um ýmist streitutengd mál tvisvar á ári. Í fyrrahaust vorum við með málþing fyrir mannauðsstjóra, nú er það samskiptastreitan með athygli á verslunar-og þjónustustörf. Í haust verðum við með stærra málþing um heilbrigðismál þar sem við fáum til okkar erlenda gesti,“ segir Ólafur sem hvetur atvinnurekendur til þess að kynna sér streitu og áhrif hennar.

Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir og stofnandi forvarna ehf.
Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir og stofnandi forvarna ehf. Ljósmynd/Ólafur Þór Ævarsson

Sjúkleg streita, geðrænn sjúkdómur

 „Streita getur verið eðlilegt ástand sem fylgir lífi og starfi. Í ýmsum verkefnum er gott að geta brugðist snöggt við og áorkað miklu. Flótta- eða árásarviðbragð (e. fight or flight response) er ósjálfrátt viðbragð við hættu eða spennu. Ef við festumst í þessu viðbragði er hætta á ferðum.“

Að sögn Ólafs Þórs getur langvarandi streita leitt til sjúklegrar streitu (e.exhaustion) sem nú er flokkuð með geðrænum sjúkdómum. Sjúkleg streita getur lýst sér meðal annars í andlegri vanlíðan, kvíða, einbeitingarskorti, skertu úthaldi, minnisskerðingu, depurð svefntruflunum og verkjum.

„Einkenni sjúklegrar streitu eru svipuð og fram komu í skilgreiningu á kulnun í starfi (e.burnout)en búið er að endurskoða þá skilgreiningu og taka með fleiri þætti með, til dæmis streituvalda í einkalífi. Þar sem búið er að skilgreina sjúklega streitu betur og þau gæðrænu einkenni sem fylgja. Í kjölfarið er hægt að bregðast betur við með  markvissari ráðgjöf og læknisfræðilegum úrræðum.“

Veikindanærvera jafn alvarleg og veikindafjarvera

 Ólafur Þór bendir á að í veikindafjarveru er starfsmaður ekki talinn vinnuhæfur vegna veikinda og er því fjarri vinnustað, veikindanærvera er hins vegar ný nálgun og hugtak sem sett hefur verið fram „Þreyta er ein af meginástæðum veikindanærveru. Það er algengt að starfsmaður mæti til vinnu án þess að vera til þess hæfur. Hann er þá oft haldinn sjúklegri streitu og vandamálið oft falið. Það er mjög mikilvægt að sjúkdómsgreining fari fram sem fyrst þannig að viðeigandi meðferð geti hafist“.

Harka á vinnumarkaði stafar af skilningsleysi segir Ólafur og bendir á að samspil streitu á vinnustað og í einkalífi.  „Það er hægt að skipuleggja vinnustaði betur. Það er ekki nóg að senda starfsmann á námskeið eða ráða fleiri. Það þarf að takast á við vandamálið sjálft, finna streituvaldinn eða streituvaldana og útrýma þeim,“ segir Ólafur Þór sem hvetur áhugasama til þess að mæta á málþingið á Hótel Natura 11. maí. Skráning fer fram á www.stress.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert