„Miður“ að ótímabær umræða hafi hafist

Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Opinn fundur allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis hófst klukkan 8:30 í morgun þar sem rædd er hugsanleg sameining Tækniskólans og FÁ. Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra byrjaði á því að gera grein fyrir ástæðunum fyrir því að verið er að velta fyrir sér sameiningunni.

Hann sagði að endanleg ákvörðun um sameiningu hafi ekki verið tekin en unnið sé að því að ljúka greiningu á helstu kostum og göllum sameiningar.

Kristján Þór sagði það miður að ótímabær umræða hafi farið af stað um málið áður en allar upplýsingar lágu fyrir. Vonaðist hann til að það verði ekki til þess að spilla fyrir framhaldinu.

„Við sjáum að framhaldsskólastigið er að ganga í gegnum talsverðar breytingar. Það kemur tvennt til, annars vegar fækkun nemenda og stytting náms til stúdentsprófs,“ sagði Kristján Þór.

Hann sagði það skoðun sína að brýnt sé að huga að því að með hvaða hætti sé hægt að styrkja framhaldsskólakerfið með frekara samstarfi og sameiningu.

Hann greindi frá því að vinnan við hugsanlega sameiningu skólanna hafi hafist í febrúar þegar hann hafi ákveðið að ýta verkefninu úr vör. Starfsmenn ráðuneytisins og forsvarsmenn skólanna hafi verið með í ráðum.

Ráðherra benti á að eftir sameiningu Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði hafi umsóknum í fyrsta val í verknámi fjölgað.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á fundinum í morgun. Hún er formaður …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á fundinum í morgun. Hún er formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór sagði að verið væri að skoða réttindi kennara og annars starfsfólks FÁ vegna hugsanlegrar sameiningar en þeir myndu þá hætta að vera opinberir starfsmenn, þar sem Tækniskólinn er einkarekinn.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann vísaði í nemendaspá Hagstofunnar frá árinu 2013 þar sem kemur fram að nemendum í framhaldsskólum muni fækka til ársins 2020. Eftir það er gert ráð fyrir fjölgun til ársins 2025.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er augljóst að það má búast við meiri fækkun í skólakerfinu en sem nemur fækkun í árgöngum,“ sagði hann og talaði um að nemendum í framhaldsskólum muni fækka um tæplega 2.500 á höfuðborgarsvæðinu til 2020.

Hann nefndi að á milli áranna 2017 og 2018 muni fækka um 620 nemendur á einu ári í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór sagðist hafa greint stjórnarmeirihlutanum frá því í apríl að verið væri að skoða mögulega sameiningu skólanna.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, talaði um að Tækniskólinn og FÁ væru tveir af stærstu framhaldsskólum landsinns. Hún sagði spurningar hljóta að vakna um hverju aðrir skólar megi búast við í framhalidnu.

Kristján Þór sagði að það væri ekkert lögmál að reyna að sameina skóla sem væru smærri. Sóknarfærin gætu legið í að taka öflugar stofnanir og sameina þær. Hann lagði áherslu á að eftir því sem nemendurnir séu færri í skólum því meiri séu erfiðleikarnir. Námsframboðið fyrir nemendurna verði fyrir vikið ekki eins gott.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann sagði að fjárhagslegur ávinningur af sameiningu yrði nýttur til að styrkja undirstöðu námsins.

Kristján Þór greindi frá því að frá árinu 2013 hafi ráðuneytið skoðað reglulega hugmyndir um samstarfs og sameiningar framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Hann benti á að skólameistarar hafi árið 2014 verið fengnir til að greina styrkleika og veikleika framhaldsskólakerfisins.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Kristján Þór hvort arðgreiðslur verði teknar út úr Tækniskólanum ef af sameiningu yrði.

Ráðherra svaraði þannig að hingað til hafi það verið þannig að ef hagnaður verði af starfsemi í rekstrinum skuli sá hagnaður ganga til þess að efla nám nemenda og efla starf skólans. Allar breytingar á því þurfi að bera undir ráðuneytið en hann á ekki von á því að neinar breytingar verði gerðar á þessari stefnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert