Vilja breytingar á lögum um vegabréf

Vegabréf.
Vegabréf. mb.is/Hjörtur

Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis telur mikilvægt að vegabréfakerfi Þjóðskrár Íslands verði uppfært og uppfylli öll öryggisskilyrði. Undirbúa eigi útboðsferli sem fyrst vegna innkaupa á vegabréfum og endurnýjunar á framleiðslukerfi fyrir vegabréf.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vegabréf var lagt til umræðu í nefndinni eftir fyrstu umræðu á þingi. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vegabréf þannig að Þjóðskrá Íslands verði veitt heimild til að semja um vegabréf og framleiðslukerfi þeirra til lengri tíma en fimm ára, að hámarki þó til tíu ára.

Með frumvarpinu er verið að leggja til að Alþingi samþykki heimild til Þjóðskrár Íslands til að semja um vegabréf og framleiðslukerfi fyrir vegabréf til lengri tíma en fimm ára.

Á fundum nefndarinnar kom fram að Þjóðskrá Íslands hefur um nokkurt skeið undirbúið útboð vegna innkaupa á vegabréfum og endurnýjunar á framleiðslukerfi fyrir vegabréf. Núverandi framleiðslukerfi sem er í eigu Þjóðskrár Íslands sé komið til ára sinna.

Ef notast eigi við það sé nauðsynlegt að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar til þess að breyta því vegna nýrra vegabréfabóka svo að tryggt sé að það standist m.a. öryggiskröfur. Enn fremur fjallaði nefndin um mikilvægi þess að marka heildarstefnu um mál sem varða kaup eða leigu á kerfum fyrir undirstofnanir og þarfnast samþykkis Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert