Úrslitastundin rennur upp á morgun

Það ríkir mikil spenna í skákinni.
Það ríkir mikil spenna í skákinni. Ljósmynd/Skáksambandið

Það er ljóst að það verður úrslitaskák um Íslandsmeistaratitilinn í skák á morgun þegar Héðinn Steingrímsson (2562) og Guðmundur Kjartansson (2437) tefla.

Héðni dugar jafntefli en Guðmundur, sem stjórnar hvíta heraflanum, þarf að vinna. Báðir unnu þeir í kvöld. Héðinn vann Sigurbjörn Björnsson (2268) og Guðmundur hafði sigur á Birni Þorfinnssyni (2407) í lengstu skák umferðarinnar.

Báðir hafa þeir ótrúlegt skor. Héðinn hefur 7½ vinning í átta skákum en Guðmundur hefur 7 vinninga sem í „venjulegu árferði“ myndi þýða efsta sætið.  

Önnur úrslit urðu þau að Hannes Hlífar Stefánsson (2566) vann Vigni Vatnar Stefánsson (2334), Davíð Kjartansson (2389) heldur áfram á beinu brautinni eftir slaka byrjun og vann nú Dag Ragnarsson (2320). Bárður Örn Birkisson (2162) lyfti sér af botninum með góðum sigri á móti Guðmundi Gíslasyni (2336).  

Lokaumferðin á morgun hefst kl. 13. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert