Kórsöngur Rammstein

Till Lindeman söngvari Rammstein var í miklu stuði í Kórnum.
Till Lindeman söngvari Rammstein var í miklu stuði í Kórnum. mbl.is/Ófeigur

Þýska rokkhljómsveitin Rammstein tryllti lýðinn á tónleikum sem fóru fram í Kórnum í Kópavogi í kvöld. Sveitin steig á svið um klukkan 21 í kvöld og var stemningin rosaleg að sögn ljósmyndara mbl.is á staðnum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þýsku stálrokkararnir sækja Ísland heim, en árið 2001 hélt Rammstein tvenna tónleika í Laugardalshöll. Hin goðsagnakennda rokkhljómsveit Ham, sem er m.a. skipuð Óttari Proppé heilbrigðisráðherra, steig á svið í Kórnum um kl. 19:30 til að hita upp. 

Rammstein lætur sverfa til rokkstáls.
Rammstein lætur sverfa til rokkstáls. mbl.is/Ófeigur

Greint var frá því á mbl.is fyrr í dag, að yfir fimmtán manns frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu væru við störf í tengslum við tónleikana. Ástæðan er sú að eldur og sprengingar verða hluti af tónleikunum og því eru gerðar meiri öryggis- og viðbúnaðarkröfur vegna þess.

„Þetta verður varla mikið stærra,“ sagði Þorsteinn Stephensen, eigandi Hr. Örlygs og skipuleggjandi tónleikanna í ár, í Morgunblaðinu. Hann sagði fyrri tónleikana ekki standast samanburð við það sem nú væri í vændum.

Stemningin var brjáluð að sögn ljósmyndara mbl.is.
Stemningin var brjáluð að sögn ljósmyndara mbl.is. mbl.is/Ófeigur

„Þetta er ekki sambærilegt við síðasta skiptið. Þetta er búið að margfaldast að stærð og umfangi. Þetta verður tíu sinnum stærra. Á þeim tíma var hljómsveitin enn að ryðja sér til rúms og var líklega hvergi eins heit hlutfallslega og á Íslandi. Rammstein-æðið sem greip Ísland á þeim tíma var óvíða eins mikið.“

Takmörkuð umferð

Vegna tónleikanna er umferð takmörkuð verulega um þau hverfi í Kópavogi sem næst standa íþróttahúsinu Kórnum. Umferð verður takmörkuð á fimm vegum í hverfinu sem einungis íbúar og tónleikagestir geta ekið um.

Tónleikar Rammstein eru ekki síður mikið sjónarspil en dúndrandi þungarokk.
Tónleikar Rammstein eru ekki síður mikið sjónarspil en dúndrandi þungarokk. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert