Halda Íslandsmeistaramót í ísbaði

Benedikt Lafleur á Íslandsmótinu í ísbaði í fyrra.
Benedikt Lafleur á Íslandsmótinu í ísbaði í fyrra. Ljósmynd/Feykir

Íslandsmeistaramótið í ísbaði verður haldið þriðjudaginn 23. maí í sundlaug Blönduóss en mótinu er ætlað að kynna heilsubót ískaldra baða. Þegar hafa sex skráð sig til leiks.

Benedikt Lafleur mun kynna heilsugildi ísbaða og meistararitgerð sína Vatnið er kalt og djúpt eins og vitund mín sjálfs, og svo verður keppt í því hver getur verið lengst ofan í ísbaði. Í fyrra fór mótið fram í sundlaug Sauðárkróks og var það Sara Jóna Emilía sem fór með sigur úr býtum. Sat hún í ískarinu í 13:13 mínútur, en vatnið var við frostmark og var auk þess ís í karinu. 

Í tilkynningu kemur fram að sagan hafi sýnt að bæði almenningur og fræðimenn, læknar og lífeðlisfræðingar í fremstu röð hafi nýtt sér köld böð til að leitast við að lækna ýmis mannanna mein og njóta vellíðunar og frískleika. Þá hafi notkun sjávarbaða í lækningaskyni náð hámarki í Suður-Englandi og Suður-Frakklandi á 18. öld og bæði Dr. Kneipp og Ivanov hafi nýtt sér köld böð til að lækna sjálfa sig og aðra.

Vatnið í karinu er við frostmark.
Vatnið í karinu er við frostmark. ljósmynd/Benedikt Lafleur

Nýlegar rannsóknir, bæði erlendar, einkum í Finnlandi, af vetrarböðum, sem og rannsóknir og athuganir Benedikts af vettvangi sjávarbaða við Íslandsstrendur gefi vísbendingar um að regluleg dvöl í köldu vatni stuðli að minni streitu og auknum lífsgæðum, meiri frískleika og hreysti, bættri andlegri líðan, brennslu kaloría, linun krónískra verkja og hraðari bata af líkamlegum áverkjum. 

Stuðningsaðilar keppninnar eru Sundlaugin á Blönduósi (Blönduósbær), Ísgel ehf., veitingastaðurinn B&S, Fiskmarkaðurinn á Skagaströnd og fiskbúðin Fisk á disk á Blönduósi. Sá sem hlýtur fyrsta sætið í keppninni fær að launum glerstyttu en aðrir keppendur viðurkenningarskjal. Eins fá allir krakkar sem prófa að fara í ísbaðið viðurkenningarskjal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert