Hlaupa fyrir fjölskyldu Mikaels

Grændalur milli Hveragerðis og Ölkelduháls.
Grændalur milli Hveragerðis og Ölkelduháls. mbl.is/Rax

Skokkhópur Hamars í Hveragerði mun standa fyrir 24 km utanvegahlaupi og 5 km hlaupi 25. maí næstkomandi. Hlaupa á til minningar um ungan dreng, Mikael Rúnar Jónsson, sem lést af slysförum í Hveragerði 1. apríl síðastliðinn. 

Allur ágóði hlaupsins mun renna til fjölskyldunnar. Foreldrar hans hafa verið dyggir félagar í hlaupahópnum.

„Við vildum líka bjóða upp á styttri vegalengd svo fleiri geti tekið þátt og styrkt gott málefni. Hvort sem fólk hleypur eða labbar þessa 5 km í fallegu umhverfi í Hveragerði,“ segir Sverrir Ingibjartsson, einn af skipuleggjendum hlaupsins. 

Hlaupið nefnist Ölkelduhlaup og dregur nafn sitt Ölkelduhnjúk sem hlaupið er upp að og í kringum í Reykjadal. Sá staður er mjög vinsæll meðal erlendra ferðamanna. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ölkelduhlaup er haldið en þó fyrsta styrktarhlaupið.  

„Yfirleitt hafa tekið þátt um 30 til 50 manns. Ég á von á að það verði fleiri sem taka þátt núna. Það verða líka eflaust margir sem hlaupa 5 km og tilvalið fyrir þá sem eru að byrja að hlaupa,“ segir Sverrir.

Hann tekur fram að báðar hlaupaleiðirnar séu mjög fallegar. Í styttri vegalengdinni er lagt af stað frá Lystigarðinum í Hveragerði og hlaupið um skógræktarsvæði undir Hamrinum.   

Hægt er að skrá sig á hlaup.is  í utanvegahlaupið sem kostar 3.000 krónur en 3.500 krónur ef skráð er á staðnum. Tekið er við skráningu í 5 km hlaupið á staðnum og er lágmarksgjald 1.000 krónur. 

Allur ágóði hlaupsins rennur til fjölskyldu Mikaels Rúnars Jónssonar sem …
Allur ágóði hlaupsins rennur til fjölskyldu Mikaels Rúnars Jónssonar sem lést af slysförum 1. apríl síðastliðinn.
Hveragerði er fallegur bær með skemmtilegum hlaupaleiðum.
Hveragerði er fallegur bær með skemmtilegum hlaupaleiðum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert