Spáði fyrir um brúðkaupsdaginn 10 ára

Linda og Jón áttu 15 ára brúðkaupsafmæli um daginn.
Linda og Jón áttu 15 ára brúðkaupsafmæli um daginn. Aðsend mynd

Linda Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri líkamsræktarstöðvarinnar Hress, reyndist heldur betur sannspá um brúðkaupdaginn sinn þegar hún var aðeins 10 ára gömul. Hún varð snemma mjög upptekin af því að hún vildi gifta sig og hafði strax á barnsaldri sterkar skoðanir á því hvernig brúðkaupið ætti að vera. Brúðkaupsdaginn virðist hún hafa valið af kostgæfni þegar hún var 10 ára, þegar hún útbjó veisluservéttu með nafni og dagsetningu, úr blaði af hefðbundnum eldhúspappír. Þá vantaði hana aðeins rétta manninn, sem hún kynntist nokkrum árum síðar. Servéttuna forlátu fékk hún í hendurnar á dögunum og vakti hún eðlilega mikla kátínu.

Kassinn með gersemunum var vel merktur.
Kassinn með gersemunum var vel merktur. Aðsend mynd

 „Mamma og pabbi voru að taka til í húsinu sínu og fundu kassa uppi á háalofti sem stóð á: „Bannað að snerta, Linda á.“ Það þorði því enginn að opna kassann fyrr en ég mætti á svæðið, en í honum var servéttusafnið mitt og fleira sem mér hafði þótt dýrmætt á þeim tíma þegar ég lokaði kassanum,“ segir Linda sem telur að hún hafi verið 12 ára þegar hún gekk frá gersemunum.

 Löngu búin að gleyma servéttunni

„Þegar ég opnaði servéttusafnið mitt þá lá þar efst í bunkanum blað af eldhúspappír sem ég hafði skrifað á og gert eins og veisluservéttur voru í gamla daga, með áletrun. Það stóð: „Linda Hilmarsdóttir 11. maí, 1977“. Þetta hefði auðvitað alveg getað átt að vera fermingarservétta eins og brúðkaupsservétta, en ég var alltaf mjög upptekin af því að gifta mig. Dreymdi alltaf um það. Hugsaði hvernig brúðkaupið átti að vera og allt það. Ég vildi að allt yrði stórkostlegt þegar ég gifti mig.“ Linda er því sannfærð um að þarna hafi hún verið að útbúa brúðkaupsservéttu, en hún var auðvitað löngu búin að gleyma bæði servéttunni og dagsetningunni þegar kassinn fannst á háaloftinu.

Brúðkaupsservéttan sem Linda bjó til þegar hún var 10 ára.
Brúðkaupsservéttan sem Linda bjó til þegar hún var 10 ára. Aðsend mynd

„Það sem er merkilegt við þessa servéttu er að það stendur á henni 11. maí, sem er brúðkaupsdagurinn minn, en ég og maðurinn minn, Jón Þórðarson, áttum einmitt 15 ára brúðkaupsafmæli um daginn. Ég gifti mig reyndar árið 2002 en ekki 1977 eins og stendur á servéttunni.“

 Kynntust í fermingu mágkonunnar

Í kassanum voru líka tvær myndir, teiknaðar af Lindu þegar hún var barn. Önnur af manni sem bíður á strætóstoppistöð og lætur sig dreyma um brúði. „Konan við hliðina á manninum virðist reyndar mjög gömul og úrill. Það gæti reyndar verið ég, því ég er fimm árum eldri en maðurinn minn,“ segir Linda og skellir upp úr. Eins og sannur listamaður nefndi Linda verk sitt og heitir myndin: „Að bíða“. Hin myndin ber nafnið: „Gifting“ og er um að ræða mynd sem Linda teiknaði af brúðhjónum árið 1978. „Ég get svo svarið það að maðurinn á myndinni er nánast í eins fötum og maðurinn minn var í þegar við giftum okkur. Við eigum einmitt brúðarmynd af okkur sem er mjög svipuð teikningunni.“ Sagan verður því bara betri og betri, og tilviljanirnar eru fleiri. 

Þessi ungi maður lætur sig dreyma um brúði.
Þessi ungi maður lætur sig dreyma um brúði. Aðsend mynd
Lindu tókst líka að spá fyrir hverju brúðgumi hennar myndi …
Lindu tókst líka að spá fyrir hverju brúðgumi hennar myndi klæðast. Aðsend mynd

„Þetta er mjög skondin tilviljun því ég hef nú bara gift mig einu sinni,“ segir Linda, en það var í raun hún sem ákvað brúðkaupsdaginn. „Við vorum búin að ákveða að gifta okkur en ég hringdi í manninn minn og sagði að við myndum gifta okkur 11. maí. Hann var í fyrstu ekki til í það því þetta er afmælisdagur systur hans. Ég sagðist hins vegar ekki nenna að breyta þessu, enda væri ég búin að bóka kirkjuna,“ segir Linda hlæjandi, og þar við sat. Ákveðni hennar varðandi daginn gerir þessa tilviljun í raun enn skemmtilegri, því hún mundi ekkert eftir servéttunni góðu þegar kirkjan var bókuð. Þá hafði 11. maí ekki átt neinn sérstakan sess í hennar lífi, fyrr en hann varð brúðkaupsdagurinn hennar.

Lindu finnst einmitt einkar viðeigandi að brúðkaupsafmælið og afmæli mágkonu hennar sé sama dag, því þau hjónin hittust fyrst í fermingarveislunni hennar. „Þá var hann 9 ára og ég 14 ára. Við hefðum ekki viljað frétta það þá að við ættum eftir að enda saman, með tvær frábærar dætur og vinna saman alla daga í þokkabót.“

Linda og Jón á brúðkaupsdaginn, 11. maí 2002.
Linda og Jón á brúðkaupsdaginn, 11. maí 2002. Aðsend mynd
Dæturnar Embla og Nótt.
Dæturnar Embla og Nótt. Aðsend mynd



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka