Gögn færa ekki rök fyrir sameiningu

Björn bendir á að fækkun nemenda sé hönnuð og fyrirsjáanleg …
Björn bendir á að fækkun nemenda sé hönnuð og fyrirsjáanleg og það hefði átt að bregðast við henni mun fyrr. mbl.is/Eggert

„Þeir lögðu fram einhver gögn um kosti og galla þess að sameina skólana. Það sem var áhugavert þar var að kostirnir sem voru taldir upp voru í einhverjum tilvikum þeir sömu og gallarnir,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og varamaður í allsherjar- og menntamálnefnd, um fund nefndarinnar síðastliðinn föstudag þar sem hugsanleg sameining Fjölbrautaskólans í Ármúla og Tækniskólans í Reykjavík var rædd. Á fundinum gerðu Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra og skólameistarar skólanna beggja grein fyrir stöðu mála í sameiningarferlinu. Þá lögðu þeir fram greiningarvinnu um kosti og galla.

„Það var ekki ljóst hvort ákveðnir þættir væru kostir eða gallar, það virðist í raun mismunandi eftir atvikum. Það var til dæmis talið bæði jákvætt og neikvætt fyrir starfsandann í skólanum að starfsemin væri dreifð á nokkra staði,“ segir Björn

Svið breikkuð en engin styrking

Tilgangur sameiningar skólanna tveggja er sagður vera leið til að mæta þeim vanda sem framhaldsskólarnir standa frammi fyrir vegna fækkunar nemenda. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sagði í viðtali við mbl.is eftir fundinn að þetta væri áhugaverð leið til að mæta þeim vanda. Hún sagði fundinn hafa verið upplýsandi og gagnlegan.

Björn segir ekki hægt að ráða það af gögnum sem …
Björn segir ekki hægt að ráða það af gögnum sem lögð voru fram á fundi að sameining sé gagnleg. Af vef Tækniskólans

Björn segir upplýsingar vissulega hafa verið lagðar fram á fundinum, en með þær til hliðsjónar sé ekki hægt að færa rök fyrir sameiningu þessara tveggja skóla. „Þeir töldu til hvaða brautir væru kenndar á mismunandi sviðum skólans, og tóku til fleiri skóla, en það benti til að þessir skólar ættu ekkert sameiginlegt. Með sameiningu yrðu svið beggja skólanna breikkuð án þess að styrkja þær einingar sem markmiðið er að styrkja, eins og verknámið.“ Hann bendir á að verið sé að kenna sömu greinar og í Tækniskólanum í mörgum öðrum skólum, og að sameining þeirra skóla myndi styrkja þann námshluta. „Gögnin sem lögð voru fyrir nefndina útskýra hins vegar ekki af hverju það er rökrétt að sameina þessa skóla.“

Fækkun hönnuð og fyrirsjáanleg

Björn gerði athugasemd við það á fundinum að fækkun nemenda væri fyrirsjáanleg, vegna styttingar framhaldsskólans úr fjórum árum í þrjú, takmörkun á skólavist nemenda 25 ára og eldri, og með tilkomu frumgreinadeildar háskólanna.

Björn telur að ráðherra sé búinn að taka ákvörðun, en …
Björn telur að ráðherra sé búinn að taka ákvörðun, en hann gæti þó hætt við vegna þess hve sameiningin er umdeild. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fækkun nemenda er hönnuð og fyrirsjáanleg. Það ætti því að vera löngu búið að búa til áætlun um hvernig á að bregðast við, án þess að fara í einhverja flýtimeðferð. Svo er líka vert að hafa í huga að árið 2025 kemur inn í framhaldsskólana stærsti árangur sem fæðst hefur á Íslandi, sem er 2009 árgangurinn. Það er þá 25 prósent stærri árgangur en sá sem var þegar ferlið var að hefjast. Á sama tíma og við styttum nám í framhaldsskólum um 25 prósent þá endum við í 25 prósent fleiri nemendum.“

Ráðherra gæti hætt við 

Að sögn Björns var Menntaskólinn í Kópavogi einn þeirra skóla sem kom helst til greina varðandi sameiningu. „Af hverju ekki frekar að sameina MK og FÁ? Ég held að enginn hefði kippt sér neitt upp við það ef tveir skólar í sama rekstrarfyrirkomulagi yrðu sameinaðir. Þegar það er verið að skipta á milli rekstrarforma þá verður að vera einhver stefnumörkun, sem er ekki. Þrátt fyrir allar þessar breytingar sem búið er að troða í gegn að undanförnu þá eru ekki til neinar greiningar á fyrri sameiningum, en það kom einmitt líka fram á fundinum. Það er eingöngu notast við eftiráskýringar. Eins og að eftir á að hyggja séu kennararnir alveg sáttir. Það segir ekkert til um hvort markmið sameiningarinnar hafi tekist eða ekki, kerfislega séð. Í þessu tilfelli vita nemendur til dæmis ekki hvort þeir munu þurfa að flakka meira á milli bygginga en þeir hafa gert,“ segir Björn.

Aðspurður hvort hann telji að verði af sameiningu FÁ og Tækniskólans svarar hann: „Kristján gæti ákveðið að það sé of mikill hiti í þessu og hætt við, en á fundinum virtist hann persónulega vera búinn að ákveða sig. Svo er bara verið að grafa upp eftiráskýringar sem færa rök fyrir ákvörðun hans,“ segir Björn og vísar þar til Kristjáns Þórs Júlíussonar menntamálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert