Skapar nýjum dómstóli ekki traust

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Lögmannafélags Íslands telur að tillaga dómsmálaráðherra um skipun dómara í Landsrétti  sé ekki til þess fallin að skapa nýjum dómstóli traust.

Þetta kemur fram í afstöðu félagsins til rökstuðnings ráðherra á skipun dómara, að ósk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Félagið hafði frest til klukkan 14 í dag til að skila af sér sinni afstöðu í málinu. Vitnað er í minnisblað ráðherra, dagsett í gær, þar sem ráðherra segist „bundinn af því að velja þá sem hæfastir eru til að gegna embætti landsréttardómara". Einnig segir ráðherra að umsækjendurnir fjórir sem hann lagði til að færu á listann yfir dómarana fimmtán séu „að auki hæfastir til að gegna embætti dómara við Landsrétt".

Félagið segir að samkvæmt þessu sé ekki um það deilt að ráðherra telji sér skylt að velja hæfustu umsækjendurna. Vísar það í framhaldinu í dóm Hæstaréttar 14. apríl 2011, máli nr. 412/2010, þar sem sjá má hvaða kröfur þarf að gera til ráðherra víki hann frá mati dómnefndar um hverjir séu hæfastir umsækjenda.

Í afstöðu félagsins kemur fram að það sé „algjörlega óútskýrt“ af hálfu ráðherra hvað veldur því að tilteknir dómarar, sem voru samkvæmt mati dómnefndar taldir hæfari en aðrir dómarar, standi þeim skyndilega að baki.

Það helgist væntanlega af því að slíkt sé ekki hægt að útskýra svo hald sé í.

Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands.
Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands.

„Enn síður, hvernig framangreind „breyta“ verður þess valdandi að umsækjandi, sem var í 30. sæti samkvæmt mati dómnefndar, standi skyndilega umsækjanda í 7. sæti framar, svo dæmi sé tekið.

Virðist samkvæmt framansögðu heldur vandséð, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að embættisfærsla ráðherra fullnægi þeim kröfum sem leiða má meðal annars af dómaframkvæmd Hæstaréttar og almennum reglum stjórnsýsluréttar, enda erfitt að sjá að niðurstaðan sé í samræmi við þá stjórnsýslu sem ráðherra kveðst þó sjálfur leggja til grundvallar,“ segir í bréfi félagsins.

„Stjórn Lögmannafélags Íslands telur þessa embættisfærslu síst til þess fallna að skapa nýjum dómstól það traust og veganesti sem nauðsynlegt er í lýðræðisþjóðfélagi. Að sama skapi eru það vonbrigði að ráðherra, sem var starfandi lögmaður, geri jafn lítið úr lögmannsreynslu, samanborið við við reynslu af dómsstörfum, og raun ber vitni.“

Undir bréfið ritar Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands, fyrir hönd stjórnarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert