Tengsl milli offitu í æsku og þunglyndis

Þeir sem eru of þungir í barnæsku eiga mun fremur á hættu að glíma við þunglyndi en þeir sem verða of þungir á fullorðinsárum, ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar sem er þáttur í alþjóðlega verkefninu MooDFOOD.

Könnuð voru tengsl ofþyngdar í æsku og þunglyndis hjá nærri 900 einstaklingum en horft var til þyngdar og hæðar þátttakenda við 8 ára, 13 ára, 50 ára og 75 ára aldur og athugað hvort þeir hefðu verið greindir með þunglyndi einhvern tímann á ævinni, að því er segir í fréttatilkynningu um rannsóknina.

„Rannsóknin leiddi í ljós að ofþyngd í barnæsku er mun meiri áhættuþáttur fyrir þunglyndi en það að verða of þungur/feitur fyrst á fullorðinsárum. Þannig eru þeir sem eru of feitir við átta ára aldur þrisvar sinnum líklegri til þess að þróa með sér alvarlegt þunglyndi einhvern tíma á lífsleiðinni en þeir sem þyngjast á fullorðinsárum. Þá eru þeir sem eru of feitir við þrettán ára aldur fjórum sinnum líklegri til þess að þróa með sér meiri háttar þunglyndi en áðurnefndur samanburðarhópur. Sama gilti um þá sem glímdu við ofþyngd bæði í æsku og á fullorðinsárum.“

Rannsakendurnir segja m.a. að vegna fjölgunar of feitra fullorðinna og aukinna áhrifa samfélagsmiðla á líkamsímynd fólks sé afar mikilvægt að átta sig á tengslum offitu og ofþyngdar í æsku og þunglyndis, enda hafi hvort tveggja mikil áhrif á lífsgæði fólks.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á European Congress on Obesity en hana vann Deborah Gibson-Smith, doktorsnemi við Læknasetur Vrije-háskóla í Amsterdam, í samstarfi við Rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala.

Það er Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði og forstöðumaður Rannsóknarstofunnar í næringarfræði sem stýrir MooDFOOD-verkefninu hér á landi.

Íslenski MooDFOOD-hópurinn hefur áður birt tvær vísindagreinar sem benda til þess að hætta á þunglyndi og einkennum þunglyndis sé aukin ef styrkur D-vítamíns og omega-3 fitusýra í blóði er lágur.

Nánar um MooDFOOD.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert