„Bálhvasst“ syðst á landinu

Fjúkandi fossar undir Eyjafjöllum.
Fjúkandi fossar undir Eyjafjöllum. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

„Þetta er ábyggilega víða svona á verstu stöðunum eitthvað um 35-40 m/s í hviðum,“ segir Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Meðalvindurinn slefar í storminn.“

Hvöss austanátt og votviðri ríkir víða um land í dag, einkum á Suðausturlandi, og nær vindur stormstyrk með suðurströndinni og hvassast undir Eyjafjöllum. Vegagerðin beinir þeim tilmælum til vegfarenda sem ferðast á húsbílum, með kerrur eða ferðavagna að hafa varann á.

„Það er nú bálhvasst hérna syðst á landinu, undir Eyjafjöllum og í Öræfasveitinni núna en það ætti að fara að draga úr þessu seinni partinn í dag og verður orðið skaplegt þar svona um þrjúleytið,“ segir Hrafn. Norðan Reynifjalls hefur vindur slagað upp í 40 m/s í hviðum en á Mýrdalssandi er vindur nokkuð hægari þar sem hviður hafa mest farið í um 25 m/s.

Þá er talsverð úrkoma á Suðausturlandi og Austfjörðum og verður áfram á morgun og svolítið vætusamt áfram um helgina. Að sögn Hrafns dregur þó aðeins úr úrkomunni á ákveðnu svæði vestan Öræfa síðdegis og í kvöld en áfram verður talsverð úrkoma austan Öræfa lengur fram á kvöld en kann að draga úr í nótt og í fyrramálið.

Hrafn segir þó að búast megi við betra veðri um landið á morgun. „Það verður miklu betra veður á morgun svo sem víða. Það verður strekkingsnorðaustanátt norðvestan til, leiðindaverður á Vestfjörðum svona mestan partinn á morgun, en síðan verður meinlaust veður á laugardaginn,“ segir Hrafn. Áfram verða þó austlægar áttir og svolítið vætusamt en eftir helgi er búist við þurrara veðri en fer aðeins kólnandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert