Flestir telja lífið sanngjarnt

mbl.is/Styrmir Kári

Meirihluti landsmanna telur lífið vera sanngjarnt samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR eða 72,1%. Hins vegar eru 27,9% á öndverðri skoðun.

Fram kemur í fréttatilkynningu að konur séu líklegri en karlar til þess að telja lífið sanngjarnt eða 74% á móti 71% karla. Með auknum aldri telji ennfremur fleiri lífið sanngjarnt. Þannig telja 83% 68 ára og eldri samkvæmt könnuninni að lífið sé sanngjarnt en einungis 60% á aldrinum 18-29 ára eru hins vegar sömu skoðunar.

Með auknum heimilistekjum aukast ennfremur líkurnar á að fólk telji lífið sanngjarnt. Þannig eru 81% þeirra sem hafa eina milljón eða meira í heimilistekjur á því að lífið sé sanngjarnt en 57% þeirra sem hafa undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði.

Hvað pólitískar skoðanir varðat er stuðningsfólk Pírata (60%) og Samfylkingarinnar (51%) líklegra en aðrir til þess að telja lífið ósanngjarnt. Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eru hins vegar líklegri en aðrir að telja lífið sanngjarnt eða 88% þeirra. 

Kjósendur Framsóknarflokksins koma þar næstir með 81%, þá stuðningsmenn Viðreisnar með 78% og þar á eftir kjósendur Vinstrihreyfingarinnar - græns frmaboðs með 76%.

Stuðningsmenn Bjartrar framtíðar koma ekki við sögu en fylgi flokksins hefur ítrekað mælst undir 5% fylgi sem þarf til að fá fulltrúa kjörna á Alþingi í skoðanakönnunum undanfarna mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert