Miklu lofað en minna um efndir?

Kjartan Magnússon og Dagur B. Eggertsson.
Kjartan Magnússon og Dagur B. Eggertsson.

„Ég myndi nú frekar spyrja þá sem eru á Miklubrautinni á morgnana hvað þeim finnist um það,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um tillögur minnihlutans um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Hann segir ástæðuna fyrir þéttingu byggðar ekki síst til að stytta ferðalög milli heimilis og vinnu og minnka þannig umferðarteppur. Það gerist ekki með því að halda áfram uppbyggingu austast í borginni.

Í bókun sinni kallar minnihlutinn húsnæðisáætlun borgarinnar leiksýningu. Miklu sé lofað en minna sé um efndir. „Mér finnst þetta nú bara gamaldags pólitískt tal,“ segir Dagur um þetta.

Farið hefur verið af stað með yfir 900 íbúðir á ári síðustu tvö ár. Dagur á von á að stór hluti þeirra komi inn á markaðinn á næstu tólf mánuðum. „Við erum stödd í einhverju mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar í húsnæðismálum,“ segir borgarstjórinn.

Sjálfstæðismenn hlynntir þéttingu byggðar

„Við höfum lagt áherslu á að borgin leggi metnað sinn í það að fullnægja eftirspurninni og koma með fleiri lóðir í Úlfarsárdal, en um leið að þétta byggð,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Hann segir Sjálfstæðismenn mjög hlynnta þéttingu byggðar og þá hafa stutt þau þéttingarverkefni sem eru í gangi og komið með eigin tillögur í þeim efnum. Borgarmeirihlutinn leggi hins vegar nær eingöngu áherslu á þéttingu byggðar en Sjálfstæðismenn vilji samhliða því auka lóðaframboð austast í borginni. 

Hann segir að þegar hafi verið ráðist í byggingu hverfis í Úlfarsárdal og því megi líta á frekari uppbyggingu þar sem vissa þéttingu byggðar.

Kjartan segir að bregðast mætti við auknum umferðarþunga um Miklubraut með bættum almenningssamgöngum við Úlfarsárdal og segir alla flokka sammála um mikilvægi þeirra. Eins sé nauðsynlegt að bæta Miklubrautina og Vesturlandsveginn og nefnir Kjartan mislæg gatnamót við Miklubraut sem dæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka