„Hljóð og mynd fer ekki saman“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, gagnrýnir aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lausnar á húsnæðisvandanum í sáttmála sem var kynntur í síðustu viku. Hann segir þær ekki leysa vandann fyrir ungt og efnaminna fólk því húsnæðið sem verði í boði verður dýrt og auk þess nái aðgerðirnar langt fram í tímann.

Hann bendir einnig á að stjórnvöld segjast vilja auka stuðning við fyrstu kaupendur en það stangast á við fjármálaáætlunina þar sem dregið verður úr húsnæðisstuðningi.

„Hljóð og mynd fer ekki saman,“ segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is og bætir við að það hefði þurft að samræma aðgerðirnar sem séu í hróplegri mótsögn.

Í síðustu viku var kynntur svo­kallaður hús­næðis­sátt­máli sem er unninn í samstarfi við Sam­tök­ sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu sem Bene­dikt Jó­hann­es­son fjármálaráðherra og Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri rituðu undir.

Byggt á dýrum þéttingarreitum

„Það er skortur á framboði á ódýrara húsnæði og ástæðan fyrir því er meðal annars sú að það er verið að byggja á þéttingarreitum. Hugmyndirnar í sáttmálanum snúa meira og minna að því að byggja á þeim og annaðhvort á að selja landið á markaðsverði, sem er býsna hátt, eða að gera ábatasamning eins og var gert við Garðabæ um Vífilsstaðalandið þar sem hæstbjóðandi fær hana að lokum. Ég get ekki séð að þetta muni lækka verðið til ungs fólks. Allar þessar lóðir eru dýrar og það fer beint inn í byggingarverðið,“ segir Sigurður Ingi.

Í sáttmálanum er einnig nefnd uppbygging á Keldnalandi með fyrirvara um borgarlínu. „Þar verður lagt svokallað innviðagjald vegna borgarlínu því hún er svo kostnaðarsöm. Þar verða íbúðir fyrir ungt fólk mjög dýrar og einnig leiguíbúðir. Ég sé ekki hvernig hægt er að bjóða sífellt lóðir sem eru dýrari og dýrari því það leysir ekki þann vanda að það er erfitt fyrir ungt fólk að komast inn á húsnæðismarkaðinn,“ segir Sigurður Ingi.

Hann bendir á að það hefði þurft að auka úrval íbúða á ódýrara landsvæði eins og til dæmis í Úlfarsárdal og í Grafarholti.  

Enginn úr Sjálfstæðisflokki við undirritunina

„Af hverju var enginn úr Sjálfstæðisflokki sem er í meirihluta í ríkisstjórn á þessum blaðamannafundi,“ spyr Sigurður Ingi. Hann segir það skjóta skökku við og bendir á að þessar hugmyndir hafi komið upp áður en þá hafi þær strandað á Sjálfstæðismönnum.

„Mér sýnist að þeir sem kenna sig við jafnaðarmennsku séu sammála um að ýta undir stéttskiptingu í borginni með því að bjóða sífellt dýrari lóðir og þar með talið íbúðir fyrir venjulegt ungt fólk með meðaltekjur og lægra því það mun ekki geta keypt eða leigt íbúðir á þessum dýru svæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert