„Alltof fá úrræði fyrir heimilislausa“

Finnur Guðmundarson Olguson
Finnur Guðmundarson Olguson mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég þekki nokkra sem hafa upplifað heimilisleysi í einhvern tíma. Þetta hefur legið á mér. Mér finnst þetta líka áhugavert fræðilega séð út frá landfræðinni um hreyfanleika heimilislausra og hvernig þeir nálgast borgina,” segir Finnur Guðmundarson Olguson sem skrifaði BS-ritgerð í landfræði í Háskóla Íslands sem nefnist, Heimili án húsnæðis: Ferðir og staðir heimilislausra í borgarlandslaginu.  

Í ritgerðinni voru tekin viðtöl við þrjá einstaklinga sem voru heimilislausir, tvo karlmenn og eina konu. Þau höfðu dvalið langdvölum í neyðarathvörfum og einn hafði fengið fast búsetuúrræði. Ástæður þess að fólk verður heimilislaust eru margþættar en í flestum tilvikum hefur það glímt við einhvers konar fíknivanda eða geðrænan vanda og margir við hvort tveggja.

Röð áfalla í lífi fólks

„Þetta er oft röð áfalla í lífinu að fólk finnur sig á þessum stað. Mér fannst ég ekki geta einblínt á sögu þessa fólks, það er of viðamikið verk. Ég vildi nálgast það á þeim stað sem það er. Fordómalaust,” segir Finnur og bætir við: „Það kom mér á óvart hvað þau voru heilsteyptar manneskjur þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður sem þau höfðu upplifað.”

Í ritgerðinni var leitað svara við þeim spurningum hvernig heimilislausir skapa sér heimili í borgarlandslaginu og hvaða hlutverki tilteknir staðir í borginni og hreyfanleiki heimilislausra gegna í þeirri viðleitni. Helstu niðurstöður benda til þess að þrátt fyrir að húsnæðisvandi fólks hvíli þungt á því geti jákvæð tengsl heimilislausra við aðra staði í borgarlandslaginu orðið til þess að þeim finnist þeir eiga einhvers staðar heima. Þessi tengsl eru háð því að heimilislausir upplifi sig velkomna, að þeir hafi tækifæri til að hafa mótandi áhrif á staði og möguleika á að staldra við í stað þess að þurfa stöðugt að vera á ferðinni í daglegu lífi.

Austurvöllur
Austurvöllur mbl.is/Styrmir Kári

Flóknara en hann bjóst við

„Þetta er flóknara en ég gerði mér grein fyrir áður en ég byrjaði að skrifa. Mér fannst líklegt að þjónusta við heimilislausa væri ábótavant. Það er að stórum hluta þannig en það er líka margt gott gert,“ segir Finnur.

Í því samhengi bendir hann á að brátt bjóði Reykjavíkurborg upp á búsetuúrræði með stuðningi. „Mér finnst ekki fullkominn skilningur á því hversu einstaklingsmiðuð mörg búsetuúrræðin þurfa að vera og þau úrræði eru í eðli sínu dýr. Það er bæði tregða hjá borg og ríki að leggja mikið fé í þessi mál,” segir Finnur.

Af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er Reykjavíkurborg eina sveitarfélagið sem reynir að taka á þessum málum, að sögn Finns. Hann bendir á að dæmi eru um að einstaklingar flytji lögheimili sitt til Reykjavíkur til að reyna að fá úrslausn sinna mála.

„Erfitt að draga úr því hvað húsnæðisvandi liggur þungt á fólki“

Í stuttu máli þá hefur húsnæðisleysi neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra. Þeir einstaklingar sem eru heimilislausir neyðast til að vera mikið á ferðinni yfir daginn og þeir eiga því erfiðara með að koma sér upp rútínu sem skiptir máli í lífi fólks. Ef fólk er of hreyfanlegt hefur það neikvæð áhrif því þá á það erfiðara með að mynda tengsl við ákveðna staði.

Félagslegi þátturinn hefur mikil áhrif á það hvernig fólki líður og sótti fólkið í ákveðinn félagsskap á þessum stöðum sem því leið vel á. Á ákveðnum stöðum eru heimilislausir ekki vel liðnir. Það verður til þess að fólkið sækir í almannarými, torg, verslunarrými, bókasöfn og fleira þess háttar. Misjafnt er hvort fólki er leyft að hafa mótandi áhrif á þá staði.

„Það er erfitt að draga úr því hvað húsnæðisvandi liggur þungt á fólki. Sumir heimilislausir tengjast stöðum eins og Austurvelli og Fógetagarðinum þó það sé ekki heimili þá þjónar það svipuðum tilgangi og er ákveðin rútína í lífi fólks,” segir Finnur og bendir á að fólkið bjó yfir mikilli þekkingu á borginni og nýtti hana á allt annan hátt en flestir aðrir borgarbúar.

Gistiskýli Samhjálpar.
Gistiskýli Samhjálpar. mbl.is/Eggert

Lítið svigrúm til að verða sér úti um húsnæði

Finnur tók viðtöl við tvo karlmenn og eina konu. Annar mannanna hafið nýverið fengið fasta búsetu og hann átti erfitt með að finnast hann eiga heima á heimili sínu en leit meira á það sem athvarf sem hann skipulagði daginn út frá og náði að sníða hversdaginn meira að sínum þörfum. Honum fannst hann eiga meira heima í bænum. Sá maður sem hafði athvarf í neyðarathvarfi hafði lítið svigrúm til að verða sér úti um annað húsnæði. „Hann var alltaf í eltingaleik við tímann um að finna sér einhvern stað til að vera á yfir daginn en svo þurfti hann að vera kominn í gistiskýlið fyrir ákveðinn tíma til að eiga vísan næturstað,“ segir Finnur. 

Konan í hópnum var með langvarandi fíknivanda. Hún dvaldi ýmist í Konukoti eða á heimili kærasta síns á milli þess sem hún var á götunni. Þegar hún var í neyslu fór allur dagurinn í að redda sér peningum og vímuefnum og fór því minni tími í að sníða sér rútínu með því að tengjast tilteknum stöðum í borginni.

Of fá úrræði

„Það eru alltof fá úrræði fyrir heimilislausa og einnig er of litið gert í að hafa heimilislaust fólk með í ráðum. Í nútíma samfélagi heyrir það til undantekninga að fólk sem nýtur ákveðinna þjónustu sé ekki haft með í ráðum,“ segir Finnur.

Viðmælendur Finns auk annarra í sömu stöðu ræddu allir um að það væri mikill missir af dagsetri hjálpræðishersins út á Granda. Starfsemi dagsetursins var hætt árið 2015. Þangað gat fólk komið yfir daginn og fengið mat og heilbrigðisþjónustu auk þess rætt við félagsráðgjafa og slakað á í kyrrðarherbergi.

„Þarna var fólk virkt á daginn og gat fengið fræðslu og heilbrigðisþjónustu. Þetta vantar sárlega fyrir þennan hóp,“ segir Finnur. Þegar þessum stöðum var lokað kom það mörgum í opna skjöldu sem sýnir skort á upplýsingum og samráð við þennan hóp fólks að mati Finns. 

Finnur bindur vonir við að ritgerðin veiti innsýn í málaflokkinn sem hægt er að nýta til opinberrar stefnumótunar, gefi heimilislausum færi á að tjá sig um málefni sem snúa að þeim og að þekking heimilislausra á borginni varðveitist. Hann segir ekki ólíklegt að hann muni vinna áfram að svipuðum rannsóknum í framtíðinni en eins og stendur vinnur hann við smíðar enda einnig menntaður húsgagnasmiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert