Skapar þúsundir starfa

Samtök iðnaðarins áætla að störfum í byggingariðnaði muni fjölga um nokkur þúsund á næstu árum. Sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun segir aðeins hægt að manna þessar stöður með innflutningi vinnuafls.

Árni Jóhannsson, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, segir áætlað að um 11.800 manns starfi nú í byggingariðnaði, eða sem svarar 6,2% af vinnuaflinu. Til samanburðar hafi 17.500 manns starfað í greininni 2008, eða 9,8% af vinnuaflinu. Árni rifjar upp að framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði var lokið þegar tölurnar voru teknar saman 2008. Með hliðsjón af síðustu uppsveiflu og eftirspurn nú telur Árni raunhæft að 2.000 til 3.000 ný störf verði til í byggingariðnaði á næstu árum.

Til að setja þessar tölur í samhengi voru að jafnaði 3.823 einstaklingar á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun í apríl og voru þar af 227 í mannvirkjagerð. Tölur fyrir maí hafa ekki verið birtar.

Nýliðun dugar ekki til

Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir í Morgunblaðinu í dag að með þetta í huga muni að óbreyttu þurfa að flytja inn vinnuafl til að mæta eftirspurn í byggingariðnaði.

„Það verður aukin eftirspurn eftir fólki í byggingariðnaði, iðnaðarmönnum og almennu verkafólki. Það eru mjög fáir atvinnulausir í þessum greinum. Það er auðvitað einhver endurnýjun, menn fara á eftirlaun og nýir menn ljúka námi, en að stórum hluta verður þetta leyst með innflutningi vinnuafls,“ segir Karl.

Meðal verkefna sem skapa mörg störf er uppbygging hótels, íbúða og höfuðstöðva Landsbankans við Hörpu í Reykjavík. Við þær framkvæmdir og við byggingu Hafnartorgs skammt frá munu starfa minnst um 850 manns. Þá munu rúmlega 350 manns starfa við uppbyggingu við sjö önnur verkefni við nálægar götur í miðborginni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert