Helgi sinnti börnum með brunasár

Helgi Jóhannsson er yfirlæknir svæfinga á St. Mary‘s-háskólasjúkrahúsinu í London.
Helgi Jóhannsson er yfirlæknir svæfinga á St. Mary‘s-háskólasjúkrahúsinu í London. Ljósmynd úr einkasafni

„Byggingin var í ljósum logum þegar ég vaknaði í nótt. Hún lýsti upp Vestur-London,“ segir Helgi Jóhannsson læknir sem var kallaður til starfa á St. Mary's-sjúkrahúsinu í nótt til að sinna þeim sem slösuðust í eldsvoðanum mikla í Grenfell-turninum. Helgi er yfirlæknir svæfinga á háskólasjúkrahúsinu. Í nótt komu um sextán þeirra 65 íbúa hússins sem slösuðust til meðferðar á spítalanum, aðallega börn.

St. Mary's er neyðarsjúkrahús fyrir norðvesturhluta Lundúna og þar er barnagjörgæsludeild sem ekki er að finna á öðrum sjúkrahúsum í nágrenninu. „Þegar svona stór atvik koma upp þá er hringt í okkur,“ sagði Helgi í samtali við mbl.is rétt fyrir hádegið. Hann var þá kominn heim til sín eftir annasama nótt.

mbl

Helgi fékk símtal um kl. 3 í nótt og var beðinn um að mæta á vakt. Hann segir fjölda lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna hafa mætt til vinnu. „Viðbrögðin voru góð og útkallið vel skipulagt. Það var vel mannað á vaktinni,“ segir Helgi sem hefur starfað á sjúkrahúsinu í áratug.

Brunasár voru helstu áverkar þeirra sem Helgi og aðrir á St. Mary‘s sinntu í nótt. Sumir höfðu hlotið alvarleg brunasár, að sögn Helga.

Þriðja stóra atvikið á þremur mánuðum

Helgi segir að verkefnið sem blasti við starfsmönnum sjúkrahússins hafi verið gríðarstórt. „Þetta var eiginlega jafnstórt verkefni og þegar hryðjuverkið var framið í Westminster fyrir þremur mánuðum. Þá fengum við ellefu sjúklinga til okkar.“ Hann segir eldsvoðann þriðja stóra atvikið sem spítalinn hefur þurft að fást við á nokkrum vikum. Það fyrsta var árásin á Westminster, þá árásin á London Bridge og nú stórbruninn í Grenfell-turninum. „Það lítur ekki út fyrir að eldsvoðinn hafi verið hryðjuverk en þetta er engu að síður mikill harmleikur.“

Viðbragðsáætlanir sjúkrahússins eru að sögn Helga góðar og ganga vel eftir. „Það mikilvægasta hjá okkur er að flæðið sé gott, að það myndist ekki flöskuhálsar og stíflur á bráðamóttöku, gjörgæslu eða skurðstofum.“

Enn logar í byggingunni.
Enn logar í byggingunni. AFP

Hann segir að ekki megi svo gleyma því að á meðan verið er að fást við svona stórslys þurfi einnig að sinna öðrum hefðbundnari neyðartilvikum sem ávallt komi upp.

Helgi á von á því að mæta aftur til vinnu í fyrramálið. „Ég bý í Norðvestur-London og ég sé bygginguna héðan af svölunum. Þegar ég vaknaði í nótt og leit út um gluggann þá sá ég þetta. Þá var byggingin hreinlega í ljósum logum. Hún lýsti upp Vestur-London.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert