Merkur fundur á Dysnesi

Sverðið er í jörðu rétt ofan við flæðarmálið á Dysnesi.
Sverðið er í jörðu rétt ofan við flæðarmálið á Dysnesi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég hef aldrei áður tekið þátt í rannsókn þar sem kemur svona mikið fréttnæmt fram áður en byrjað er að grafa,“ segir Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, sem stýrir uppgreftrinum á kumlateignum á Dysnesi við Eyjafjörð.

Þegar hafa fundist fjögur kuml og þar af tvær bátsgrafir. „Við erum fimm sem störfum núna við svæðið en það gæti breyst eftir helgi þar sem verkefnið er mun stærra en við lögðum upp með,“ segir Hildur en teymið hefur einungis náð að hreinsa fram það sem hefur sést.

„Á morgun eða eftir helgi förum við í að grafa restina af haugnum sem sverðið var í og þá byrjar uppgröfturinn í raun.“

Sverðið mjög illa farið

Uppgröfturinn er meðal annars forvitnilegur fyrir þær sakir að eingöngu eru um tíu bátskuml þekkt á Íslandi. Þar af hafa fundist tvö bátskuml í sama kumlareit á Dalvík. „Það kuml sem við fundum fyrst er fjærst sjónum, sjórinn hefur sem sagt ekki náð að rjúfa það neitt, það er mjög stór haugur virðist vera, rúmlega sex metrar á lengd. Það er því möguleiki á að þar leynist eitthvað meira.“

Allir átta starfsmenn á svæðinu hjálpuðust að við að koma …
Allir átta starfsmenn á svæðinu hjálpuðust að við að koma járnplötu undir moldarstykkið þar sem sverðið er að finna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Á meðal þess sem hefur fundist er víkingasverð sem er líklega frá 9. eða 10. öld.

„Í [gær]morgun kom forvörður og með mikilli samvinnu náðum við að lyfta sverðinu. Af því sverðið er svo ofboðslega illa farið þá þurftum við að lyfta því upp í mold. Það var grafinn upp stallur í kringum það og járnpallur settur undir, síðan var plastað í kringum moldarköggulinn. Að lokum var gifs sett utan um allt og það verður flutt til Þjóðminjasafnsins til rannsókna.“

Uppgröfturinn er enn ekki hafinn að sögn Hildar en áætlað er að hann taki um tvær vikur eða þar til búið er að grafa upp þau kuml sem eru innan þess svæðis sem búið er að opna.

„Þessir tveir bátar og stærðin á haugnum er á mun stærri skala en við höfum verið að vinna með undanfarin ár. Við getum lítið sagt um við hverju er að búast undir þessum stóra haug.“

Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, sem stýrir uppgreftrinum (til …
Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, sem stýrir uppgreftrinum (til vinstri) og Sigríður Þorgeirsdóttir, forvörður á Þjóðminjasafni Íslands, að störfum á Dysnesi í gær. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert