10% hafa sagt upp hjá Heilsugæslunni

Læknum fækkar á meðan álag eykst.
Læknum fækkar á meðan álag eykst. mbl.is/Árni Sæberg

Á síðustu sex mánuðum hafa að minnsta kosti níu sérfræðingar í heimilislækningum sagt upp störfum hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og tveir til viðbótar nýlega verið ráðnir svæðisstjórar. Eru þetta um tíu prósent af starfandi sérfræðingum stofnunarinnar, samkvæmt heimildum mbl.is. Á sama tíma hefur álag aukist vegna nýs greiðsluþátttöku- og tilvísanakerfis sem á að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað sjúklinga heilbrigðiskerfinu.

Óskar Reykdalsson, settur forstjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir það í samtali við mbl.is að heilsugæslan sé undirmönnuð og að fjármagn skorti til úrbóta. Ástandið fari hins vegar batnandi. Rétt rúmlega 100 sérfræðingar í heimilislækningum starfa hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, en læknar sem sinna sjúklingum á þeim vettvangi eru um 130 til 140.

Skortur á læknum gerir það einnig að verkum að ekki er hægt að manna afleysingar hjá heilsugæslunni meðan á sumarleyfum stendur í sumar. Ekki eru til nógu margir heilsugæslulæknar til að manna stöðurnar, líkt og mbl.is greindi frá í síðustu viku.

Læknar fóru í einkarekstur

Við erum auðvitað aðeins undirmönnuð og þyrftum að hafa fleiri heimilislækna. Við viljum að einn læknir sinni um 1500 íbúum, en við náum því ekki alveg. Sumar stöður eru ekki fylltar og okkur vantar fasta sérfræðilækna í nokkrar stöður. Þá er ákveðinn skortur á fjármagni til að geta bætt úr og gert þetta eins og við vildum helst hafa það,“ segir Óskar í samtali við mbl.is

Óskar staðfestir að nokkrir læknar innan Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi …
Óskar staðfestir að nokkrir læknar innan Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi sagt upp og farið í einkarekstur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hvort hann geti staðfest þann fjölda lækna sem sagt hafa upp eða horfið til annarra starfa á síðustu mánuðum, segist Óskar ekki hafa nákvæmar tölur í höndunum, en þær tölur sem hér koma fram gætu verið nærri lagi. „Það gæti nú alveg verið, ég er ekki alveg með nákvæmar tölur yfir þá sem hafa sagt upp, en það fóru nokkrir í einkarekstur. Þeir eru í sjálfu sér ennþá innan heilsugæslunnar en rekstrarmódelið er öðruvísi. “

Hvað svæðisstjórana varðar þá eru þeir einhvers konar framkvæmdastjórar á heilsugæslustöðva, eru minna í klínísku starfi og hitta sjúklinga því ekki jafn mikið og aðrir læknar. „Það minnkar því aðeins framboð á læknum, en í heildina séð er fjölgun á læknum á höfuðborgarsvæðinu sem starfa við heilsugæslu,“ segir Óskar og tekur þá einkareknar heilsugæslustöðvar með inn í þær tölur.

„Þá er meira samstarf á milli stétta og breytt innra skipulag sem gerir það að verkum að það eru heldur fleiri sjúklingar teknir inn en áður. Aukning á samskiptafjölda síðastliðnu ári er um tíu prósent. Við erum því að gera tíu prósent meira en við gerðum fyrir ári. Það gengur því betur hjá okkur en menn þorðu að vona.“

Finna fyrir auknu álagi 

Þann 1. maí síðastliðinn var tekið upp nýtt greiðsluþátt­töku- og til­vís­ana­kerfi sjúk­linga, en mark­miðið breytingunum er að gera heilsu­gæsl­una að fyrsta viðkomu­stað sjúk­linga í heil­brigðis­kerf­inu. Eðli máls­ins sam­kvæmt mun kom­um á heilsu­gæsl­una fjölga, enda það til­gang­ur­inn.

Óskar segir lækna á heilsugæslunni finna fyrir auknu álagi vegna breytinganna. „Fólk er að koma í meira mæli, sérstaklega börn. Þetta er hins vegar ekki íþyngjandi. Heilsugæslan sinnir bara svo mörgum á hverjum degi og við finnum ekki fyrir 100 fleiri heimsóknum á dag.“

Óskar segir töluverða endurnýjun í stétt heimilislækna og því sé …
Óskar segir töluverða endurnýjun í stétt heimilislækna og því sé framtíðin björt. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Breytingarnar hafa í för með sér auk­inn kostnað við heim­sókn­ir barna á aldr­in­um 2 til 18 ára, til sér­fræðilækna, hafi þau ekki til­vís­un frá heim­il­is­lækni. Aukn­ing get­ur verið á bil­inu 125 til 350 pró­sent. Með til­vís­un er þjón­ust­an hins veg­ar gjald­frjáls.

Óskar segir töluvert um að fólk sé að hafa samband við heimilislækna eingöngu til að fá tilvísun. Þannig á kerfið hins vegar ekki að virka, að hans sögn. „Reglugerðin verður að vera það skýr að það sé sjálfgefið að þeir sem raunverulega eiga að vera hjá barnalæknum séu þar. Þannig við séum ekki bara að útfylla einhverjar tilvísanir.“ Þeir sem ekki þurfi meðferð hjá sérfræðilæknum eigi hins vegar að leita beint til heilsugæslunnar og fá þannig gjaldfrjálsa þjónustu fyrir þennan aldurshóp.

Ekki alveg tilbúin í aukninguna

„Við erum kannski ekki alveg tilbúin í aukninguna og höfum ekki náð að manna sem því nemur. Við getum auðvitað ekki tekið yfir þessi hundrað þúsund viðtöl sem um ræðir. Það þyrfti að bæta við 20 til 30 læknum til við gætum það. Það er ekki raunhæft. Þetta er hins vegar þannig að það eru margir sem fara einfaldlega sjálfir til sérfræðilæknis og borga það sem þarf. Þetta er svosem ekki mikill peningur.“

Óskar vonast þegar meiri reynsla kemst á nýja kerfið verði hægt að slípa það til og koma í veg fyrir aukavinnu lækna, á borð við þær sem fylgja tilvísanakerfinu.

Aðspurður segir hann það mat Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að stofnunin komi til með að ráða við aukið álag á vegna breytinganna. Það þurfi hins vegar ýmsu að breyta. „Það þarf að styrkja heilsugæsluna og við höfum vilyrði fyrir því frá þeim stjórnmálamönnum sem stýra landinu. Við þurfum auðvitað að breyta ýmsu hjá okkur líka, innra skipulagi og fleira. Heilsugæslan þarf að eflast og styrkjast.“ Þá bendir Óskar á að töluverð endurnýjun í hópi sérfræðinga í heimilislækningum og framtíðin sé björt hvað það varðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert