Skapandi sumarstörf í Kópavogi

Hér má sjá myndarlegan hóp Skapandi sumarstarfa í ár. Í …
Hér má sjá myndarlegan hóp Skapandi sumarstarfa í ár. Í sumar munu 25 aðilar vinna að 14 mismunandi verkefnum. Ljósmynd/Rakel Blomsterberg

Í sumar munu 25 einstaklingar vinna að 14 mismunandi verkefnum í Skapandi sumarstörfum í Kópavogi. Yfir sumarið vinna þessir einstaklingar að verkefnum sínum með hjálp leiðbeinanda sem veita þeim aðhald og handleiðslu. Störfunum lýkur með uppskeruhátíð 27. júlí en þá kynna listamennirnir verk sumarsins með sýningum í Kópavogi.

Verkefnin eru fjölbreytt og ólík innbyrðis enda vinnur fólk úr öllum áttum að þeim. Þau eiga það þó sameiginlegt að vera hugarfóstur ungra Kópavogsbúa.  Á hverju ári sækja um leikarar, tónlistarfólk, hönnuðir, ljósmyndarar og dansarar svo eitthvað sé nefnt. Þessir hópar og einstaklingar skipuleggja uppákomur í bænum yfir sumartímann og taka þátt í hátíðarhöldum á 17. júní. 

Af fjölmörgum verkefnum má nefna verkefni Þránds, eða Marbendils, sem heitir GerviKópur og snýr að því að semja tónlist og búa til myndir í stíl við. Hákon Jóhannesson, eða Hákon Lobster er með leikþáttinn Lifandi leiksenur. Einnig má nefna hópinn Kollektív sem samanstendur af Andrési Þóri Þorvarðarsyni og Katrín Helgu Ólafsdóttur, sem ætla að nýta sumarið í tónverkasmíð og Sólrún Ylfu Ingimarsdóttir, sem vinnur að að stiklukvikmyndagerð með leiri.

Kópavogur er miðpunktur sumra verkefnanna. Friðrik Margrétar- Guðmundarsson tónskáld sér um verkefnið Kópavogsvinjetturnar, þar sem hann býr til tónverk og myndskeið útfrá mismunandi stöðum í Kópavogi. Ljósmyndaverkefni Bolla Magnússonar heitir Kópavogur í nýju ljósi. Í því hvetur hann Kópavogsbúa að líta öðrum augum á bæinn sinn, annað hvort með því að sýna þekkt kennileiti í nýju ljósi eða benda á leyndar perlur sem fæstir hafa leitt hugann að. 

Hægt er að fræðast meira um Skapandi sumarstörf í Kópavogi inná facebook síðu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert