Stefnir í spennandi endasprett

Þátttakendur WOW Cyclothon í banastuði á þjóðvegi eitt.
Þátttakendur WOW Cyclothon í banastuði á þjóðvegi eitt. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Í B-flokki í WOW Cyclothon leiða nú liðin CCP og Zwift, en þau fylgjast að og eru að nálgast Jökulsárlón samkvæmt nýjustu fregnum frá keppninni. Þá er Peter Coljin fremstur einstaklinga og liðið Team Cannondale GÁP Elite leiðir í A-flokki.

Lið CCP er þannig ekki aðeins í baráttunni um efsta sæti á í hjólreiðakeppninni heldur leiðir það einnig fjáröflunarkeppnina og hefur safnað yfir einni milljón króna.

B-flokkur er fjölmennasti flokkur keppninnar þar sem 1.100 hjólreiðamenn taka þátt en í þriðja til fjórða sæti eru liðin Whale Safari og Team TRI. Þau fylgjast einnig að og eru um það bil 15 kílómetrum á eftir fremstu liðum. Meðalhraði liðanna er rúmlega 35 kílómetrar á klukkustund en allt getur gerst enn og nóg eftir af keppninni.

Búist er við að fyrstu lið WOW Cyclothon komi í mark snemma í fyrramálið, líklega um sjöleytið, sé miðað við meðalhraða keppenda hingað til. Á það við um fremstu lið í öllum flokkum, A-, B- og einstaklings.

Fremsti keppandi í einstaklingsflokki er sem fyrr segir Peter Coljin en klukkan 19 í kvöld var hann kominn fram hjá Skaftafelli og er enn með töluvert forskot á hina keppendurna í einstaklingsflokki, þá Jakub Dovrák, Michael Glas og Jón Óla Ólafsson sem eru staddir um 150 til 200 kílómetrum fyrir aftan Coljin.

Fremstir í A-flokki eru Team Cannondale GÁP Elite en þeir voru komnir fram hjá Djúpavogi þegar 25 tímar voru liðnir frá því að liðin voru ræst af stað frá Reykjavík í gær, yfir 700 kílómetra í burtu. Í öðru sæti er liðið Team Cyleworks og í þriðja sæti liðið Húnar en um 40 kílómetrar eru á milli þeirra og Team Cannondale.

Í flokki kvennaliða í B-flokki er Team Artica Finance fremst í flokki en þær eru núna við botn Berufjarðar og hafa töluvert forskot á önnur lið í flokknum. Í öðru sæti er XY Cycling sem er komið fram hjá Egilsstöðum og í TF-JOY í því þriðja sem var rétt ókomið til Egilsstaða klukkan 19 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert