Stefna í átt að aukinni samvinnu

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, tekur undir með Mark Britnell og Birgi …
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, tekur undir með Mark Britnell og Birgi Jakobssyni, landlækni, um þörf á aukinni samvinnu innan heilbrigðisþjónustunnar. mbl.is/Eggert

Aukin samvinna milli stofnanna stuðlar að bættri heilbrigðisþjónustu samkvæmt Óttarri Proppé heilbrigðisráðherra. Þá hefur verið litið til annarra landa við uppbyggingu heilbrigðisskerfisins á Íslandi í formi ráðgjafar, samstarfs og rannsókna. 

Birgir Jakobsson landlæknir sagði í viðtali við mbl.is á föstudaginn að Íslendingar mættu horfa aukið til nágrannalandanna hvað varðar breytingar á heilbrigðiskerfinu í kjölfar erindis sem Mark Britnell hélt í húsa­kynn­um KPMG í síðustu viku. Talaði Britnell m.a. um samstarf milli landa, þörf á aukinni samvinnu milli heilbrigðisstofnana og skilvirkari aðferðum í hjúkrun aldraðra hér á landi.

Brit­nell hef­ur víðtæka reynslu í heil­brigðis­geir­an­um. Hann var einn af stjórn­end­um sjúkra­húss­ins í Bir­ming­ham og hef­ur starfað hjá KPMG í átta ár og veitt ráðgjöf til heil­brigðis­yf­ir­valda í 69 lönd­um á veg­um fyr­ir­tæk­is­ins.  

Mbl.is leitaði svara hjá umhverfisráðherra við gagnrýni þeirra en Unnsteinn Jóhannsson, aðstoðamaður hans, staðfesti að mikið sé horft til annarra landa innan heilbrigðisþjónustunnar í gegn um samstarf við stofnanir, rannsóknir og framhaldsnáms fagfólks og stjórnenda, innan Evrópu og víðar. Þá hafa verið nýttar ábendingar frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni og utanaðkomandi ráðgjöf erlendra stofnana og fyrirtækja við framþróun hennar undanfarin ár.

Nefnir hann sérstaklega uppbyggingu heilsugæslunnar hér á landi sem kemur að fyrirmynd Svíþjóðar.

Litið er til Norðurlandanna og víðar við gerð nýrrar stefnu í heilbrigðismálum og fylgt ábendingum WHO (World Health Organization) um samvinnu og samfellu í heilbrigðisþjónustu. Þar má nefna gerð heilsugæslunnar að fyrsta viðkomustað í þeim tilgangi að auka gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga.

Aukin samvinna - bætt þjónusta

Heilbrigðisráðherra tekur undir með Britnell og Landlækni um að styrkja þurfi frekari samvinnu og samstarf innan heilbrigðisþjónustunnar. Stefna í heilbrigðismálum hér  á landi hefur einkennst af því að tekið sé á einkennum frekar en rót vandans en stefnt er að því að það muni breytast en með ákvörðun um nýjan Landspítala skapast nýir og skýrari möguleikar í framtíð heilbrigðismála á Íslandi.

Við gerð nýrrar heilbrigðisstefnu er samvinna stofnana ríkisins og þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu í forgrunni. Þetta á til dæmis við um þjónustu við þá sem njóta heimahjúkrunar eða bíða vistunar á hjúkrunarheimilum. Unnið er að því að fjölga hjúkrunarrýmum og að auka möguleikann á að aldraðir geti búið lengur á eigin heimili með bættri þjónustu.

Fjarheilbrigðisþjónusta og rafræn sjúkraskrá eru liðir í þróun rafrænna samskipta um allt land en verkefni um fjarheilbrigðisþjónustu eru í þróun víða um land. Tilgangurinn er að bæta aðgengi að þjónustu auk þess sem hún að skapar möguleika á samvinnu og samráði milli þeirra sem veita hana.

Í sambandi við skýrari línur og betri samþættingu heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi segir Unnsteinn að áætlanir liggi fyrir um aukna upplýsingagjöf til almennings um ýmis heilbrigðismál og hvar leita megi þjónustu vegna mismunandi heilbrigðisvanda. Áætlað er að þeim verði hrint í framkvæmd á næstu mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert