Kominn 18 ára á samning í bátarallíi

Halldór kom öflugur inn í bátarallísenuna í Noregi fyrir þremur …
Halldór kom öflugur inn í bátarallísenuna í Noregi fyrir þremur árum. Ljósmynd/Spirit of Pakistan

„Þetta er algjör draumur, maður fær ekki oft svona tækifæri,“ segir Hall­dór Vil­berg Reyn­is­son sem hefur skrifað undir samning við lið sem keppir í formúlu 4 í bátarallíi. Hann horfir fram á að keppa víða í Evrópu og á Arabíuskaganum á næstu misserum.  

Fyrir þremur árum var fjallað um Halldór Vilberg og bátarallí á mbl.is. Þá sagði hann að draum­ur­inn væri að keppa í formúlu 4 en kostnaðurinn væri honum ofviða. Hann keypti formúlu 4 bát í fyrra og hefur notað hann til æfinga og sýninga en aldrei keppt. Í sumar rættist draumurinn loksins þegar hann skrifaði undir hjá liðinu Spirit of Pakistan sem léttir honum töluvert kostnaðinn og skaffar bæði bát og bíl. 

Spirit of Pakistan ætlar að hasla sér völl í Noregi.
Spirit of Pakistan ætlar að hasla sér völl í Noregi. Ljósmynd/Spirit of Pakistan

Ég ætlaði alltaf að keppa í Noregi þetta sumar en síðan kom dálítið upp á og ég ákvað að taka bátinn ekki með frá Íslandi. Ég þekki mann í Noregi sem er að hjálpa þessu liði að komast af stað og vissi að ég væri ekki að keppa. Hann talaði við liðið sem hafði síðan samband og spurði hvort ég hefði áhuga. Ég sagði strax já.“

Liðið flaug nýlega til Noregs frá Sádí-Arabíu þar sem eigandinn er búsettur til þess að taka þátt í bikarmóti sem fer fram á morgun. Þá keppir Halldór í fyrsta sinn á formúlu 4 bát sem getur náð allt að 110 km hraða. Liðið keppir á mótum í Noregi framan af árinu og eftir það verður haldið til annarra landa. 

„Það er aðallega keppt í Evrópu og á Arabíuskaganum. Planið er að fara til Dúbaí í vetur og keppa þar í desember. Síðan verður keyrt á fullu á heimsmeistaramótið og Evrópumeistaramótið á næsta ári.“

Formúlu 4 bátar geta komist upp í 110 km hraða …
Formúlu 4 bátar geta komist upp í 110 km hraða i miðri keppni. Ljósmynd/Spirit of Pakistan

Samhliða æfingum og keppnum í bátarallíi hefur Halldór verið í námi og unnið með til þess að eiga fyrir rekstri á bátnum. Hann er í tæknistúdentsnámi og stefnir á vélarverkfræði í háskóla. Þá ætlar hann sér stóra hluti í bátarallíi og nú þegar einn draumurinn hefur ræst tekur annar við. 

„Nú er draumurinn formúla 1 en það er erfitt að fara beint þangað, maður verður að byrja í formúlu 4 og sjá hvernig það gengur. Þetta er eins og annað rallísport, ef þú vilt keppa á hæsta stigi þá kostar það peninga,“ en vert er að taka fram að formúla 1 er efsti keppnisstig í bátarallíi.

Ljósmynd/Spirit of Pakistan
Ljósmynd/Spitir of Pakistan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert