Dánarbætur skerði ekki atvinnuleysisbætur

Vinnumálastofnun skerti atvinnuleysisbætur konunnar vegna greiðslu makalífeyris og dánarbóta.
Vinnumálastofnun skerti atvinnuleysisbætur konunnar vegna greiðslu makalífeyris og dánarbóta. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umboðsmaður Alþingis telur skerðingu atvinnuleysisbóta vegna greiðslu makalífeyris og dánarbóta ekki samræmast lögum. Þetta kemur fram í úrskurði sem birtur var á síðu umboðsmanns nú í dag.

Kona nokkur leitaði til umboðsmanns Alþingis eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að skerða atvinnuleysisbætur hennar, annars vegar vegna makalífeyris sem hún fékk greiddan frá tilteknum lífeyrissjóðum vegna andláts maka og vegna greiðslu dánarbóta sem hún fékk greiddar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og hins vegar vegna áframhaldandi greiðslna dánarbóta til hennar. Taldi konan skerðingu atvinnuleysisbóta á grundvelli þessara greiðslna ekki eiga sér lagastoð. 

Er það niðurstaða umboðsmanns að sá úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála sé ekki í samræmi við lög.

Vísar umboðsmaður til þess að í skerðingarákvæði í lögum séu tilgreindar ákveðnar greiðslur sem komi til frádráttar atvinnuleysisbótum, t.d. „elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar“  sem og „elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum“.

„Með lögum hefði síðan verið bætt við upptalninguna að hið sama ætti við um „aðrar greiðslur sem hinn tryggði [kynni] að fá frá öðrum aðilum“,“ segir í reifun umboðsmanns um málið. Þegar litið sé til orðalags skerðingarákvæðisins, forsögu þess og lögskýringargagna, sem og þeirra krafna sem gera verði til skýrleika þeirra lagaákvæða sem skerði atvinnuleysisbætur, fullnægi hins vegar ekki makalífeyrir frá lífeyrissjóðum og dánarbætur frá Tryggingastofnun þeim skilyrðum lagaákvæðisins að teljast „greiðslur frá „öðrum aðilum““.

Beinir umboðsmaður því þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að taka mál konunnar til meðferðar að nýju óski hún þess og að leyst verði þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem fram komi í áliti umboðsmanns.

Þá er því beint til úrskurðarnefndar velferðarmála að hún taki í framtíðinni mið af þessum sjónarmiðum, sem og að hún kanni hvort úrskurðurinn eigi einnig við um sambærileg mál sem þegar hafi komið upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert