Sjötti hver ferðamaður í flokknum „aðrir“

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þjóðerni sjötta hvers ferðamanns sem hingað kemur hefur verið á huldu, alla vega þegar litið er til talningar ferðamanna á Keflavíkurflugvelli. Stærð þessa hóps ætti hins vegar að dragast saman með ítarlegri talningu sem tekin var upp nýverið. Þetta kemur fram í frétt Túrista.

Við vopnaleitina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þurfa flugfarþegar að sýna vegabréf þannig að hægt sé að flokka þá eftir þjóðernum. Þessi talning á vegum Ferðamálastofu hefur lengi verið helsti mælikvarðinn á umsvifin í ferðaþjónustu landsins og eru niðurstöður talninganna birtar mánaðarlega.

Þar er erlendu ferðalöngunum skipt upp eftir sautján þjóðernum og fólk frá öðrum þjóðum fer í flokkinn „aðrir".

„Sá hópur hefur farið sístækkandi í takt við ferðamannastrauminn hingað til lands og í fyrra var þjóðerni 286 þúsund erlendra ferðamanna óþekkt. En í heildina voru ferðamenn hér rétt tæplega 1,8 milljónir á síðasta ári og það lætur því nærri að sjötti hver túristi sem hingað kemur fari í óskilgreinda hópinn,“ segir í frétt Túrista. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert