Ekki farið í sérstakar ráðstafanir að svo stöddu

Á þessari mynd sést berghlaupið greinilega. Hálf fjallshlíðin skríður þarna …
Á þessari mynd sést berghlaupið greinilega. Hálf fjallshlíðin skríður þarna áfram. Til að átta sig á hlutföllunum þá stendur Gunnhildur Stefánsdóttir á toppi fjallsins, en hún virkar mjög smá í þessu hrikalega landslagi. Mynd/Árni B. Stefánsson

Ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir vegna berghlaups úr Litlahöfða á friðlandi að Fjallabaki að sögn landvarðar, en í skoðun er að almannavarnir komi upp myndavél til að fylgjast með framvindu mála. Þetta segir Valdimar Kristjánsson, yfirlandvörður á svæðinu, í samtali við mbl.is.

Á þriðjudaginn sagði mbl.is frá því að stærðarinnar berghlaup ætti sér stað úr fjallinu, en fjallshlíð skríður þar fram og telur sérfræðingur hjá Veðurstofunni að hlíðin geti allt eins farið fram á næstu dögum eða vikum.

Valdimar segir að klettaveggurinn sé langt frá gönguleiðum á svæðinu og því muni landverðir vara fólk við sem er á ferðalagi á svæðinu, en að ekki verði gerðar aðrar ráðstafanir í bili.

Til að komast að klettunum þarf að keyra af Dómadalsleið upp Pokahryggi í átt að Hrafntinnuskeri, en Valdimar segir að sú leið sé enn mjög blaut og leiðinleg og til að komast þangað upp þurfi að vera að lágmarki á 38“ breyttum jeppum.

Þegar komið er upp á fyrsta 1.000 metra hólinn á þeirri leið er um 1 kílómetra gangur að fjallinu og segir Valdimar að þar sjái fólk klettavegginn í góðri og öruggri fjarlægð. Ítrekar hann að fólk fari ekki beint undir vegginn heldur gangi í sveig umhverfis fjallið vilji það virða þessar hamfarir fyrir sér.

Í dag er mikil þoka á svæðinu að hans sögn og því erfitt að sjá klettinn, en Valdimar fór í gær upp að fjallshlíðinni til að skoða ummerki. Segir hann að svo virðist vera sem lítið hafi breyst frá því um helgina, þegar myndirnar voru teknar, sem mbl.is birti og teknar voru af Árna B. Stefánssyni. Hann tekur þó fram að hann sé ekki sérfræðingur í þessum efnum og miklar breytingar geti átt sér stað á skömmum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert