Vegagerðin fær 56,5% af eldsneytisgjöldum

Tekjur ríkissjóðs af bílum hafa aukist á síðustu árum.
Tekjur ríkissjóðs af bílum hafa aukist á síðustu árum. mbl.is/Hanna

Aukin eldsneytisnotkun Íslendinga á síðustu árum birtist í auknum skatttekjum ríkissjóðs af eldsneyti. Þær jukust úr 36 milljörðum 2012 í 44,4 milljarða 2016.

Þótt olíuverð hafi lækkað mikið og krónan styrkst hafa föst krónugjöld skilað hærri skatttekjum af eldsneyti. Virðisaukaskattur leggst svo ofan á gjöldin.

Samkvæmt talningu Vegagerðarinnar er umferð að aukast. Skatttekjur af eldsneyti munu því að óbreyttu aukast. Virðisaukaskattur af vöru- og kolefnisgjaldi á bensín var 3.139 milljónir í fyrra. Þá var virðisaukaskattur af vöru- og kolefnisgjaldi á olíu 2.484 milljónir. Samtals var virðisaukaskattur vegna þessa 5.623 milljónir.

Hlutfall af gjöldum

Sigurður Guðmundsson, skipulagsfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu, segir virðisaukaskattinn hér reiknaðan sem hlutfall af umræddum gjöldum. Til dæmis hafi þrír liðir, almennt og sérstakt vörugjald af bensíni og kolefnisgjald, skilað ríkissjóði 13.081 milljón í fyrra. Sé reiknaður 24% virðisaukaskattur af þeirri upphæð sé útkoman 3.139 milljónir.

Tafla/mbl.is

Um 2,5 milljarðar í vsk. af gjöldum á dísilolíu í fyrra

Þá skilaði olíugjald 9.350 milljónum í fyrra og kolefnisgjald á dísilolíu 1.001 milljón, alls 10.351 milljón. Sé reiknaður 24% virðisaukaskattur af því er útkoman 2.484 milljónir. Þetta kom fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns VG, í júní.

Sigurður segir að í svarinu sé einungis tilgreindur virðisaukaskattur sem leggst ofan á gjöldin.

„Virðisaukaskattur er alltaf lagður á hið endanlega söluverð vörunnar. Þar með er innifalið grunnverð vörunnar og öll álagning, þar með talið af hálfu smásala og ríkisins,“ segir Sigurður. Fram kom í svarinu að tekjur ríkissjóðs af vöru- og kolefnisgjöldum á eldsneyti, bifreiðagjaldi og vörugjöldum af ökutækjum námu alls 44,4 milljörðum í fyrra. Sigurður segir að í þessari tölu sé ekki tekið með kílómetragjald, eða svonefndur þungaskattur, sem leggist á ökutæki sem eru 10 tonn eða þyngri.

Samtals rúmir 25 milljarðar

Fram kemur í svari ráðherrans að markaðar tekjur sem renna til vegagerðar séu sérstakt bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald. Árið 2016 voru markaðar tekjur til Vegagerðarinnar 17.750 milljónir og framlag úr ríkissjóði 7.339 milljónir, alls 25.089 milljónir. Þá hefur Vegagerðin aðrar tekjur en vegna vegagerðar. Sigurður segir frumvarp í undirbúningi um að leggja af markaðar skatttekjur. Allar tekjur muni færast hjá ríkissjóði. Fjallað var um frumvarpið í áðurnefndu svari ráðherrans. Þar segir að frumvarpið muni „byggja undir þau ákvæði og það hlutverk Alþingis að ákveða hversu miklu fé skuli ráðstafað til einstakra málaflokka hverju sinni“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert