Brotnaði saman eftir skilaboð blaðamanns

Dómþingið er haldið í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómþingið er haldið í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Fyrsti vélstjóri Polar Nanoq var annar til að bera vitni í dag við aðalmeðferð dómsmálsins sem höfðað var vegna andláts Birnu Brjánsdóttur. Sagðist hann hafa verið í áhöfninni síðan árið 2009. Hann hefði þá þekkt Thomas Olsen, sem ákærður er í málinu, frá því fyrir um tveimur árum þegar hann hóf fyrst störf.

Sagðist hann hafa verið að horfa á sjónvarpið um klukkan sex að morgni laugardagsins 14. janúar, þegar hinn skipverjinn, Nikolaj Olsen, hefði komið um borð. Nikolaj sat í gæsluvarðhaldi í tvær vikur vegna málsins.

Hann hefði verið mjög drukkinn, sem hafi verið óvenjulegt. Þeir hefðu talað saman þar sem ekki væri vel séð að skipverjar væru drukknir. Þá sagðist hann hafa haldið að Nikolaj hefði komið með leigubíl.

„Ég held að hann hafi ekki vitað hvar hann var, því hann var svo fullur,“ sagði vélstjórinn.

Þurfti lyf til að róa Thomas

Þá sagðist hann hafa séð Thomas í hádeginu á laugardeginum, þar sem hann hefði komið upp landganginn með handklæði.

Hann hefði þá rætt við vinnufélaga sinn um þetta. „Við héldum að einhver hefði kastað upp í bílinn, fyrst að handklæðið var með.“

Þá sagði hann að eftir að Thomas hefði fengið textaskilaboð frá blaðamanni, um rauða bílinn, hefði hann brotnað saman. Thomas hefði þá farið í stýrishúsið og skýrt skipstjóranum frá textaskilaboðunum. Tíu til tólf tímum eftir það hafi þurft lyf til að róa hann.

Ekki hafi þá verið auðvelt að ræða við hann, hann hefði verið svo taugaóstyrkur.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari spurði vélstjórann því næst út í dvöl skipsins í Danmörku vegna seinni hluta ákærunnar, sem varðar fíkniefnasmygl. Sagðist hann hafa séð Olsen fara í burtu á nóttunni í Danmörku.

Verjandinn tók því næst til máls og spurði vélstjórann um nettengingu skipsins. Hún hafi nýst til að skrifa texta en verið erfið til notkunar í annað en það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert