Átta lítrar af málningu ollu hvíta litnum

Þann 9. júlí var heilbrigðiseftirliti tilkynnt um undarlegan hvítan lit …
Þann 9. júlí var heilbrigðiseftirliti tilkynnt um undarlegan hvítan lit í Varmá í Mosfellsbæ. Ljósmynd/aðsend

„Það er komin nokkurn veginn mynd á þetta núna í sumar hvaða atburðir hafa verið tilkynntir. Það eru nokkrir atburðir og þar af bara einn sem virðist hafa leitt til fiskadauða,“ segir Árni Davíðsson, heilbrigðisfulltrúi Mosfellsbæjar, í samtali við mbl.is.

Alls hafa fimm tilfelli mengunar í Varmá verið tilkynnt heilbrigðisyfirvöldum í Mosfellsbæ í sumar en reglulega í gegnum árin hefur komið upp mengun í ánni. Íbúar hafa ítrekað kvartað vegna þessa til bæjaryfirvalda en ekki er alltaf um sambærileg tilvik að ræða. Sjálfir þurfa íbúar að vera meðvitaðir um að ofanvatn frá nærliggjandi hverfum geti borist í ána.

Tekin voru sýni í ánni í gær en það mun taka nokkra daga að fá niðurstöður og ekki er endilega víst að útkoman varpi ljósi á hvað olli fiskadauða í ánni. Þó er líklega komin skýring á því hvað olli hvítum lit í ánni.

„Það er bara unnið úr hverju máli fyrir sig og annað hvort fæst niðurstaða, það er bundið því hver orsökin er, eða það er engin niðurstaða fundin og það er þá bara óútskýrt,“ segir Árni. „Það sem skiptir náttúrlega máli, þegar íbúar sjá þetta, er að ef þeir hafa tíma og tækifæri til að þeir hlaupi upp ána eða lækinn og leiti að uppsprettunni.“

Það sé einkum í ljósi þess að oft berist heilbrigðiseftirliti tilkynningar seint og mengun þá jafnvel liðin hjá. Alltaf sé þó brugðist við tilkynningum en eftir því sem lengri tími líður því erfiðara getur verið að rekja upptök mengunar.  

Sýni voru tekin í Varmá í Mosfellsbæ í gær í …
Sýni voru tekin í Varmá í Mosfellsbæ í gær í kjölfar fiskadauða í ánni. mbl.is/Golli

Fimm tilkynnt tilfelli síðan 24. júní

Fyrsta tilkynning um mengun í ánni barst Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis þann 26. júní vegna atburðar sem varð 24. júní þegar sápulöður sást í ánni. Tókst að rekja uppruna sápulöðursins í stút sem ber ofanvatn eða regnvatn úr tveimur íbúðagötum, Grenibyggð og Furubyggð. Hægt var að rekja upptökin til gatnanna tveggja en ekki liggur ljóst fyrir hvað gerðist eða hvaðan nákvæmlega sápan barst í ána.

„Það hefur enginn gefið sig fram og kannski bara vegna þess að viðkomandi hefur ekkert áttað sig á því að það sé verið að leita að skýringu,“ segir Árni.

Þann 9. júlí var tilkynnt um hvítan lit í ánni og var þar til í gærkvöldi ekki vitað hvað olli menguninni. Í kjölfar fréttaumfjöllunar um málið í gær gaf íbúi sig fram við starfsmann bæjarins og greindi frá því að hellst hafi úr 8 lítra fötu af hvítri vatnsmálningu í skotti á bíl. „Hann skolar það úti á plani eða úti á götu þannig að það fer í regnvatnsniðurfall,“ segir Árni. „Auðvitað er ekkert hægt að vera 100% á því en það er sennileg skýring.“

Líklega má rekja hvíta litinn í Varmá um daginn til …
Líklega má rekja hvíta litinn í Varmá um daginn til hvítrar vatnsmálningar. Ljósmynd/aðsend

Þá var aftur tilkynnt um sápulöður í ánni þann 13. júlí og þann 14. júlí var tilkynnt um dauða fiska í ánni. „Þá er það ekki víst hvort að það sé af sápulöðri þarna deginum áður eða einhver annar atburður sem ekki hefur verið tilkynnt um,“ segir Árni. Enn sé á huldu hvað það var sem olli fiskadauðanum en þetta er ekki í fyrsta sinn sem fiskur hefur drepist í ánni vegna einhvers konar mengunar.

„Ég hef verið í sambandi við Keldur þar sem eru helst sérfræðingar sem geta krufið fiskana og við eigum þá í frysti og það á bara eftir að athuga hvort það komi eitthvað út úr því,“ segir Árni.

Loks var aftur tilkynnt um hvítan lit þann 16. júlí en að sögn Árna er ekki sjálfgefið að þar sé um að ræða sama atburð og vegna hvíta litarins sem tilkynnt var um þann 9. júlí.

Fiskadauði í Varmá í Mosfellsbæ.
Fiskadauði í Varmá í Mosfellsbæ. mbl.is/Golli

Íbúar þurfi ávallt að vera meðvitaðir

Að sögn Árna virðist sem ekki séu allir íbúar meðvitaðir um að yfirborðsvatn úr nærliggjandi hverfum berist í Varmá. Síðastliðið haust hafi upplýsingablaði verið dreift í hús í Mosfellsbæ í þeim tilgangi að vekja athygli íbúa á málinu og biðlað til þeirra um að vera meðvitaðir um hverju þeir skoli niður sem geti ratað í ána. Allur gangur sé þó á því hvort slíkt nái athygli íbúa.

„Sú upplýsingagjöf þarf kannski að vera öflugri og náttúrlega þessi fréttaumfjöllun hefur vakið marga til vitundar um þetta,“ segir Árni.

Þá sendi heilbrigðiseftirlitið bæjaryfirvöldum bréf fyrir nokkrum árum þar sem lagt var til að gerð yrði áætlun um verndun árinnar en þá höfðu heilbrigðisyfirvöld áður vakið athygli bæjarins á málinu. Slík úrbótaáætlun er til að sögn Árna og fyrir liggja plön um að koma fyrir ýmist hreinsiþróm eða settjörnum til að tefja fyrir mengun í ánni. Ekki hefur þó verið ráðist í slík verkefni ennþá.

Hreinsibúnaður engin töfralausn

Hreinsibúnaður á borð við settjarnir og hreinsiþrær hafa í sjálfu sér ekki í för með sér mikla hreinsun að sögn Árna en geta stoppað eða tafið fyrir mengun og þannig komið í veg fyrir eða dregið úr umhverfisáhrifum í ánni. Þótt slíkum búnaði yrði komið fyrir þurfa íbúar þó alltaf að taka tillit til þess hvar þeir búa, að sögn Árna.

„Þetta eru svo sem þekktar lausnir. Vandinn við það er að bæði kostar þetta pening, þetta eru margir stútar og það er í rauninni sumstaðar ekkert endilega mjög auðvelt að koma þessu fyrir og það fylgir þessu auðvitað rask. Það vill kannski enginn fá einhverja djúpa tjörn nálægt heimili sínu, þar sem búa börn og svo framvegis,“ segir Árni.

En eins og staðan er núna, er eitthvað sem ber að varast í umhverfi við ána vegna mengunar?

„Nei ég myndi ekki segja það. En ég myndi aldrei náttúrlega drekka yfirborðsvatn, ef einhver léti sér detta það í hug að drekka yfirborðsvatn í þéttbýli. Það má alltaf búast við mengun í yfirborðsvatni í þéttbýli og það er bara ekki hægt að útiloka það, menn verða bara að átta sig á því. En að vaða og skvampa, það ætti alveg að vera í lagi,“ segir Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert