Skjaldarmerkið birt á rangan hátt?

Neðst á vef Stjórnarráðsins má sjá skjaldarmerkið á svörtum bakgrunni.
Neðst á vef Stjórnarráðsins má sjá skjaldarmerkið á svörtum bakgrunni. Skjáskot

Vakin var athygli á því á Twitter í fyrradag að mynd af skjaldarmerki Íslands væri birt á rangan hátt á nýjum vef Stjórnarráðsins. Samkvæmt reglum um notkun skjaldarmerkisins sem finna má á vefnum skal bakgrunnur skjaldarmerkisins ætíð vera hvítur, en umrædd mynd af því er á svörtum bakgrunni.

Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, segir í samtali við mbl.is að efst á vef Stjórnarráðsins megi sjá skjaldarmerkið í réttum litum á hvítum bakgrunni. Litið sé á myndina neðst á síðunni frekar sem nokkurs konar stimpil eða útlínuteikningu af merkinu.

„Þar sem skjaldarmerkið sjálft er sýnt efst á síðunni er það gert á réttan hátt. En þetta er nokkurs konar útlínuteikning,“ segir Sigurður og telur merkið því ekki brjóta reglur um skjaldarmerki.

Sigurður segir nýja miðla setja nýjar kríteríur, en nýr sameiginlegur vefur ráðuneytanna var opnaður nýlega. Hann leysir af hólmi eldri vefi þeirra. 

Í reglum um skjaldarmerki Íslands segir að það sé auðkenni stjórnvalda ríkisins og notkun ríkisskjaldarmerkisins sé þeim einum heimil. 

Samkvæmt forsetaúrskurði um skjaldarmerkið er það silfurlitur kross á heiðbláum feldi með eldrauðum krossi innan í silfurlita krossinum. Armar krossanna skulu ná alveg út í rendur skjaldarins á alla fjóra vegu. Breidd krossmarksins skal vera 2/9 af breidd skjaldarins, en rauði krossinn helmingi mjórri, 1/9 af breidd skjaldarins. Efri reitirnir skulu vera rétthyrndir jafnhliða ferhyrningar og neðri reitirnir jafnbreiðir efri reitunum, en þriðjungi lengri. 

Skjaldarmerki Íslands.
Skjaldarmerki Íslands. Af Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert