Vill meira eftirlit með Eiðsvík

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vinnur að því að hreinsa olíu úr Grafarlæk …
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vinnur að því að hreinsa olíu úr Grafarlæk með svokallaðri pulsu. mbl.is/Ófeigur

„Íbúasamtökin fylgjast grannt með og við erum áhyggjufull yfir þessu sérstaklega þar sem sjótengd útivera er orðin miklu algengari en hún var. Við leggjum þunga á að borgaryfirvöld bregðist við og grípi til aðgerða. Okkur finnst skrítið að það sé ekki búið að finna út hvaðan mengunin kemur,“ segir Árni Guðmundsson varaformaður íbúasamtaka Grafarvogs um olíulekann í Grafarlæk í Grafarvogi.

Síðustu daga hefur verið unnið að því að hreinsa olíuna úr Grafarlæk.

Vill reglulegt eftirlit með Eiðsvík

Hann bendir á að sjótengd útivera hafi aukist til muna á síðustu 10 árum á svæðinu. Litið sé á alla mengun á svæðinu alvarlegum augum bæði með tilliti til dýralífs og almennrar útivistar á svæðinu. Í Grafvarvoginum stundar fólk sjósund, siglir um á kajökum og nýtir fjöruna til útivistar.

Í tengslum við olíulekann og skólpmálið við Faxaskjól þar sem óhreinsuðu skólpi var hleypt út í sjó í 18 daga hyggjast Íbúasamtökin kalla eftir því að ástand fjörunnar, meðal annars við Eiðsvík, verði undir reglulegu eftirliti heilbrigðiseftirlitsins og sýni verði tekin reglulega.  

Hreinsunarstarf í Grafarlæk.
Hreinsunarstarf í Grafarlæk. mbl.is/Ófeigur

Snýst ekki um að „hengja einhvern“ 

„Við skorum á fólk sem veit mögulega eitthvað um hvaðan olíumengunin kemur að tjá sig. Þetta snýst ekki um að hengja einhvern heldur að bæta ástandið,” segir Árni. 

Árni bendir á að þegar sambærileg mengun kom upp á sama svæði fyrir nokkrum árum hafi heldur ekki verið fundið út úr því hvaðan hún kom. „Við höfum fengið ábendingar um að það hafi aldrei náðst að finna út úr því hvaðan mengunin kom. Við erum áhyggjufull yfir því,“ segir Árni og ítrekar mikilvægi þess að koma í veg fyrir mengunina.  

Árni frétti fyrst af menguninni í læknum í gegnum fjölmiðla og árvökula íbúa á svæðinu. Eftir það hefur stjórnin komið tvisvar saman og heldur áfram að fylgjast með gangi mála.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert