Biður fólk að mæta á mótið

Guðmundur Einarsson hefur verið viðriðinn Golfklúbb Sandgerðis í rúma þrjá …
Guðmundur Einarsson hefur verið viðriðinn Golfklúbb Sandgerðis í rúma þrjá áratugi og nýtir nú ástríðu sína fyrir golfíþróttinni til að styrkja góðgerðarsamtökin Einstök börn. mbl.is/Reynir Sveinsson

„Ég veit það ekki alveg, þetta var eiginlega meiri tilviljun en ígrunduð ákvörðun,“ segir Guðmundur Einarsson, kylfingur og rútubílstjóri Isavia, spurður um styrktargreiðslur sínar til samtakanna Einstakra barna.

„Verið var að gera upp nokkrar holur í golfklúbbnum okkar hérna í Sandgerði og ég ákvað að kaupa eina holu og merkja hana Einstökum börnum. Ég borga síðan þúsund krónur fyrir hvern fugl sem farinn er á holunni til samtakanna,“ segir hann en fugl telst eitt högg undir pari hverrar brautar.

Guðmundur hefur engin tengsl við Einstök börn og segist ekki alveg vita af hverju hann valdi þau góðgerðarsamtök frekar en einhver önnur. Hann segist þó vita að styrkurinn endi á góðum stað.

Skipuleggur styrktarmót

„Ekki eru þetta háar upphæðir sem ég hef verið að greiða í sumar en margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Guðmundur sem borgar samviskusamlega á hverjum mánudegi til Einstakra barna.

„Mér finnst hins vegar heildarupphæðin vera frekar lág og tók mig því til og skipulagði golfmót til styrktar samtökunum.“

Mótið, sem fer fram á Kirkjubólsvelli í Sandgerði á sunnudag, stefnir í að verða hið glæsilegasta en allur ágóði mótsins rennur til Einstakra barna og er það að sjálfsögðu opið öllum.

„Ég er að vona að við getum safnað vel fyrir samtökin en þau hafa verið mjög hjálpleg við skipulagningu mótsins, aðstoðað mig við að hafa samband við fyrirtæki og safna vinningum.“

Skorar á fólk að mæta

Allir geta tekið þátt í golfmóti helgarinnar að sögn Guðmundar, einnig þeir sem ekki spila golf.

„Ágóðinn af hverju keyptu skorkorti rennur til Einstakra barna hvort sem fólk spilar eða ekki. Þá verður dregið úr veglegum vinningum og eru öll keypt kort með í lottóinu,“ segir Guðmundur og skorar á sem flesta að mæta og njóta dagsins í góðum félagsskap.

Kirkjubólsvöllur er skemmtilegur 18 holu völlur í umsjón Golfklúbbs Sandgerðis en Guðmundur hefur spilað á vellinum í rúm 30 ár, eða frá því hann var opnaður. „Ég hef gegnt ýmsum störfum fyrir klúbbinn og spilað lengi á vellinum. Þetta er nefnilega eini völlur landsins sem er opinn allt árið.“

Óvæntur vinur í lið með okkur

„Við fengum heldur betur óvæntan vin í lið með okkur í vetur þegar golfklúbbur Sandgerðis var að laga golfvöllinn sinn,“ segir Guðrún Helga Harðardóttir, framkvæmdastjóri Einstakra barna, en það er félag barna með sjaldgæfa sjúkdóma og heilkenni.

Guðmundur hafði samband við félagið í vetur og vildi merkja félaginu eina braut á golfvellinum og styrkja félagið um 1.000 krónur fyrir hvern fugl á holunni.

„Hann hefur samviskusamlega lagt inn á félagið á hverjum mánudegi og núna hefur hann tekið sig til og skipulagt heilt golfmót til styrktar félaginu.“

Guðrún segir félagið einstaklega þakklátt Guðmundi enda skipti hver króna máli sem komi inn í starfið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert