Fanginn labbaði í burtu

Fangi slapp við lögreglustöðina á Ak­ur­eyri í gær og fannst …
Fangi slapp við lögreglustöðina á Ak­ur­eyri í gær og fannst eft­ir rúm­ar 5 klukku­stund­ir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fanginn sem slapp á Akureyri í gær var laus í rúmar 5 klukkustundir og fannst í kvikmyndahúsi. Þegar hann slapp var hann við garðvinnu við lögreglustöðina og gekk í burtu á meðan fangavörðurinn sem var með honum hafði brugðið sér frá. 

Labbaði í burtu meðan fangavörður brá sér frá 

„Hann bara labbaði í burtu,“ segir Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsisins á Hólmsheiði og Akureyri, í samtali við mbl.is. Að sögn Guðmundar var fanginn við garðvinnu í garði kringum lögreglustöðina á Akureyri. 

„Af einhverjum ástæðum, sem ég er hreinlega ekki búinn að fá upplýsingar um, þá hafði fangavörðurinn þurft að bregða sér frá í eina, tvær mínútur,“ segir Guðmundur. Fanginn fannst svo rúmum fimm klukkustundum seinna í kvikmyndahúsi að sögn Guðmundar. 

Fannst í kvikmyndahúsi

Garðurinn þar sem fanginn var við störf er ekki mannheldur að sögn Guðmundar en lág girðing er í kring. Guðmundur segir lögreglunni á Akureyri hafa borist tilkynning frá kvikmyndahúsinu að þar væri staddur maður sem væri verið að leita að. Fanginn var svo sóttur þangað af lögreglu og færður aftur í fangelsið.  

„Þetta er maður sem ekki var talið myndi grípa til slíkra ráða, enda hefði hann þá aldrei verið úti,“ segir Guðmundur. Guðmundur segir það sem betur fer fátítt að fangar strjúki og menn sem taldir eru hættulegir væru ekki staddir í fangelsinu á Akureyri. 

„Þetta skemmir bara fyrir honum sjálfum varðandi reynslulausn og annað,“ segir Guðmundur og bætir við að atvikið sé flokkað sem gróft agabrot. „Í framhaldi verður auðvitað skoðað hvað gerðist og hvað mætti betur fara,“ segir Guðmundur að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert