Börnin eru mín besta lyfjagjöf

Arnrúr Magnúsdóttir og Friðrik V. Karlsson í mötuneyti Þjóðleikhússins, þar …
Arnrúr Magnúsdóttir og Friðrik V. Karlsson í mötuneyti Þjóðleikhússins, þar sem Friðrik ræður nú ríkjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þriðjudagurinn 14. júní á síðasta ári er mörgum Íslendingum í fersku minni. Margir grétu þá af gleði eftir sögulega viðureign Íslands og Portúgals á Evrópumóti karla í fótbolta í borginni St. Etienne í Frakklandi. Þetta var fyrsti leikur Íslands á þeim vettvangi og úrslitin frábær; 1:1-jafntefli gegn Cristiano Ronaldo og félögum.

Arnrún Magnúsdóttir var ein þeirra sem glöddust óskaplega eftir sigurinn en fyrr um daginn grét hún þó enn stærri gleðitárum en flestir landa hennar um kvöldið. Hún hafði lært að ganga á ný, eftir mjög erfið veikindi. Í dagbók sína skrifaði Arnrún að kvöldi 14. júní:

„Í dag gerðist það að ég gekk bein í baki, skælbrosandi út í sólina án þess að taka feilspor. Og aftur inn og þá komu tár af gleði. Ég átti erfitt með að uppgötva og meðtaka þessa gleði og þetta öryggi og þá staðreynd að ég get gengið eðlilega úti undir berum himni.“

Sjálfhætt

Arnrún og eiginmaður hennar, Friðrik V. Karlsson, ráku árum saman veitingastaðinn Friðrik V, fyrst á Akureyri og síðan við Laugaveg í Reykjavík, við mjög góðan orðstír. Staðnum var skyndilega lokað á síðasta ári, þrátt fyrir að uppbókað væri öll kvöld. Reksturinn var samstarfsverkefni hjónanna; Friðrik var í eldhúsinu, Adda frammi í sal.

Arnrún með börnunum í Leikskólanum Brákarborg við Brákarsund þar sem …
Arnrún með börnunum í Leikskólanum Brákarborg við Brákarsund þar sem hún starfar nú. Hún segir börn og foreldra hafa tekið sér opnum örmum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þau voru eitt, segir Friðrik. Þegar veikindi komu í veg fyrir að eiginkonan gæti áfram verið hluti af ævintýrinu var sjálfhætt.

Vissulega djörf ákvörðun en þau hikuðu ekki.

Margir spurðu í forundran: Hvað gerðist? Hvað kom fyrir þessa sterku, lífsglöðu konu, Arnrúnu?

Hún segir frá því núna í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

„Þriðjudagurinn 15. mars var mjög venjulegur dagur. Við hjónin vorum í vinnunni að undirbúa kvöldið en ég fann að ég var eitthvað orkulaus, fékk mér tvöfaldan espresso og gerði mér rauðrófusafa; þessi trix sem maður hafði stundum notað áður. Í þetta skipti dugðu þau hins vegar ekki. Mér fannst ég klaufsk; gekk til dæmis illa að leggja dúk á borð og þegar Friðrik kemur fram að tala við mig tekur hann eftir því að annar helmingur andlitsins lafir,“ segir Arnrún í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Þegar Friðrik hafði orð á þessu við konu sína svaraði Arnrún því til að sér liði eins og hún væri dofin eftir ferð til tannlæknis.

„Ég endaði uppi á bráðadeild; hafði fengið blóðtappa upp í höfuð en reyndar verið einkar heppin því hann hafði losað sig sjálfur og læknar sáu ekki að ég hefði skaðast neitt varanlega.“

Hún fékk blóðþynningarlyf en var varla hálf manneskja til vinnu, orkulítil og alltaf þreytt. Átti hvorki auðvelt með að opna gosflösku né sinna öðrum hefðbundum verkum.

Máttlaus og ósátt

Arnrún, sem varð 45 ára tveimur mánuðum síðar, þurfti ítrekað á bráðadeild Landspítalans en það var svo þriðjudaginn 5. apríl sem hún „krassaði“ aftur, eins og hún tekur til orða. Fékk þá annan blóðtappa í höfuðið þar sem þau hjón voru heima hjá sér.

„Friðrik dröslaði mér út í bíl og kom mér uppeftir, bar mig inn á deild en hélt reyndar að ég væri dáin í bílnum á leiðinni því ég sýndi engin viðbrögð. Ég man ekkert eftir þessu.“

Við tóku óteljandi skoðanir og rannsóknir. „Læknarnir sáu ekki annað en ég hefði aftur fengið blóðtappa upp í höfuð en ég ætti að jafna mig. Það gerðist hins vegar ekki. Ég var alveg máttlaus og gríðarlega ósátt við að geta ekki harkað af mér.“

Fjölskyldan 2006 þegar veitingastaðurinn Friðrik V var við Strandgötu á …
Fjölskyldan 2006 þegar veitingastaðurinn Friðrik V var við Strandgötu á Akureyri. Arnrún Magnúsdóttir, sonurinn Axel Fannar 10 ára, dóttirin Karen Ösp 14 ára og Friðrik V. Karlsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Arnrún var meira og minna rúmföst í töluverðan tíma og þurfti aðstoð við alla hluti. „Það var hræðilega erfitt að vita af öllu á fullu á veitingastaðnum og geta ekki tekið þátt í því; mér fannst ég algjörlega síðasta sort og búin að klúðra öllu. Vissi líka að Friðriki leið illa að vita af mér einni heima og hefði heldur viljað vita af mér á sjúkrahúsi á meðan hann rak veitingastaðinn einn án mín.“

Að því kom að Arnrún gat ekki lengur verið heima og var lögð inn á taugadeild. „Þar fékk ég frábæra þjónustu, ótrúlega flottir sjúkraþjálfarar héldu mér gangandi og mér var sinnt af frábæru læknateymi. Fyrir það er ég ótrúlega þakklát í dag. Ég var lömuð í vinstri helmingi líkamans, allir stóðu á gati til að byrja með, rannsakað var hvort ég væri hugsanlega með Parkinson, MS eða MND en svo fundu þeir út að ég er með sjúkdóm sem kallaður er starfræn einkenni frá taugakerfi. Hann gæti hafa komið vegna blóðtappanna en hvers vegna ég fékk tappana veit enginn. Allir geta lent í því.“

Í nokkra mánuði var helsta verkefni Arnrúnar það að læra á lífið upp á nýtt. „Stórir, fjölmennir staðir henta mér ekki lengur; ég fer til dæmis helst ekki í Kringluna, Smáralind, IKEA eða Kolaportið. Ég þarf ekki að vera lengi á þessum stöðum til þess að það kvikni á einkennum; vinstri hluti líkamans fer að skjálfa og höfuðið á mér hangir niður. Þurfi ég nauðsynlega fer ég á þessa staði utan háannatíma, reyni þá að leggja bílnum eins nálægt inngangi og hægt er og er eins stutt inni og ég mögulega get.“

Ákveðin tegund hávaða fer sem sagt illa í hana, svo og mikil lýsing. Hún varð til að mynda að ganga út af leiksýningu í Þjóðleikhúsinu í vetur af þessum sökum. Þess vegna reynir hún að forðast ákveðna staði „en ég hef trú á að ég sigrist á þessu verkefni“, segir hún.

Starfið kom til mín

Arnrún er menntaður leikskólakennari og ákvað, strax eftir að hún hresstist nokkuð, að sækja um vinnu á leikskóla. Kann því illa að sitja aðgerðarlaus.

„Þetta gerðist í raun strax eftir að ég var búin að læra að ganga á ný. Starfið kom til mín! Vinkona mín að norðan, Sólrún Óskarsdóttir, er leikskólastjóri á Brákarborg í Reykjavík og ég sá um mánaðamótin júní-júlí í fyrra að hún auglýsti á Facebook eftir deildarstjóra. Við Sólrún unnum saman í leikskólanum á Árholti á Akureyri í gamla daga og ég gat ekki hugsað mér annað en að láta slag standa. Friðrik hvatti mig líka eindregið til þess. Ég veit að ég er of mikill stjórnandi í mér til að vinna „á gólfinu“ og þess vegna fannst mér þetta tilvalið.“

Arnrún segir að læknar hennar hafi ekki verið sérlega hrifnir af uppátækinu. „Þeir reyndu aðeins að draga úr mér tennurnar; það væri kannski í lagi að vinna í leikskóla en réðu mér frá því að verða deildarstjóri því álagið gæti orðið of mikið. Ég sótti samt um og fékk starfið. Lét Sólrúnu reyndar vita að mögulega væri hún að fá gallagrip; kannski gengi þetta ekki hjá mér en hún réð mig samt.“

Arnrún segir sér hafa gengið vel í vinnunni frá fyrsta degi. „Þetta hefur verið lyginni líkast. Brákarborg er yndislegur 65 ára gamall leikskóli, Sólrún er virkilega fagleg og frábær stjórnandi og starfsfólkið, börnin og foreldrarnir hafa tekið mér opnum örmum,“ segir hún.

„Að vinna með börnum er eitt það besta sem ég get hugsað mér. Ég er deildarstjóri á elstu deildinni, þar er 21 barn, hvert öðru dásamlegra! Börnin eru mín besta lyfjagjöf. Það er yndislegt að vera nálægt þeim og ég er ótrúlega þakklát. Ég þarf bara að muna eftir að hlusta á líkamann og þakka fyrir hvern dag“.

Ný útgáfa af sjálfri mér

Arnrún segir mikilvægt að kyngja því að hún geti ekki gert alla hluti „en það þýðir ekkert að hugsa um hvað ég get ekki lengur heldur bara það sem ég get. Stundum þegar ég hef reynt að hjálpa Friðriki í veislum er eins og komið sé með stóra sprautu og dreginn úr mér allur máttur. Sogaður úr mér allur kraftur. Friðrik er mjög næmur á þetta og áttar sig strax. Auðvitað langar mig að gera gagn; ég get ekki alltaf legið heima heldur vil ég taka þátt í lífinu og mun gera það eins og ég mögulega get. Við Friðrik höldum ótrauð áfram og verðum saman í einhverju“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert