Systkini saman á toppinn

Systkinin Urður, 12 ára, og Ólafur Ragnar, 9 ára, gengu …
Systkinin Urður, 12 ára, og Ólafur Ragnar, 9 ára, gengu á Herðubreið síðastliðna helgi. Ljósmyndir/Matthías Sigurðarson

„Það var svolítið erfitt að ganga upp, maður heldur alltaf að maður sé alveg að verða kominn en svo er bara mjög langt í það. Það var mun auðveldara að fara niður,“ segir Ólafur Ragnar Matthíasson, níu ára göngugarpur sem gekk á Herðubreið um síðustu helgi ásamt systur sinni, Urði 12 ára, og föður þeirra, Matthíasi Sigurðarsyni.

Fjölskyldan gekk á fjallið í 37 manna hópi á vegum Ferðafélags Íslands en Herðubreið er 1.682 metra há og er talin vera nokkuð erfitt fjall að klífa. Hópurinn þurfti því allur að bera hjálma, göngubelti, ísaxir og mannbrodda.

Drottning íslenskra fjalla

Matthías, faðir systkinanna, segir að börnin séu nokkuð vön fjallgöngum en þau hafa meðal annars gengið Laugaveginn í tvígang og gengu bæði Kjalveg þegar þau voru sjö ára.

„Við sáum þessa ferð auglýsta hjá Ferðafélagi Íslands þegar áætlun þess kom fyrir sumarið. Við höfum mikið þvælst á norðausturhálendinu og lengi dreymt um að fara á Herðubreið. Þetta er náttúrlega drottning íslenskra fjalla,“ segir Matthías.

„Okkur fannst þetta vera flott ferð með góðum og vönum fararstjóra. Krakkarnir höfðu því nokkra mánuði til þess að undirbúa sig andlega fyrir ferðina,“ segir Matthías og bætir við að systkinin stundi bæði íþróttir og séu því í góðu formi. „Við erum alltaf að feta okkur lengra og lengra eftir þeirra getu,“ segir hann.

Þolinmæðisverk

iÞað getur verið erfitt að klífa fjallið, m.a. vegna grjóthruns.
iÞað getur verið erfitt að klífa fjallið, m.a. vegna grjóthruns. Ljósmynd/Matthías Sigurðarson


Matthías segir hafa munað verulega um að þetta var fyrsti hópurinn sem kleif fjallið þetta árið en það er einungis fært á sumrin. „Það var engin almennileg slóð svo að fyrst var mjög erfitt að ganga, mikill sandur og maður rann eitt skref til baka fyrir hver tvö sem maður tók. Síðan er mikið grjóthrun sem þarf að passa gríðarlega vel upp á,“ segir Matthías og bætir við að lítill snjór hafi verið í fjallinu sem geri ferðina að sumu leyti erfiðari. „Þetta er þolinmæðisverk, enda þarf maður í raun bara að malla þetta upp,“ segir hann en hópurinn var um fjórar klukkustundir á leiðinni upp en aðeins tvær á leiðinni niður.

Mjög erfitt á köflum

Urður æfir fimleika og segir það hafa hjálpað sér mjög mikið upp á þolið að gera. Hún segir þó að gangan hafi verið mjög erfið á köflum. „Þegar maður var kominn upp á topp var maður mjög ánægður,“ segir hún og bætir við að fjölskyldan hafi meðal annars gengið nokkrum sinnum upp á Esjuna til þess að undirbúa sig. „Þessi ferð stendur klárlega upp úr eftir sumarið,“ segir Urður en hún stefnir á að ganga upp á Hvanndalshnjúk í framtíðinni.

Ólafur Ragnar æfir bæði fimleika og fótbolta og segir að það sé alltaf gaman að fara í gönguferðir. „Það var mjög góð tilfinning að komast upp á toppinn á Herðubreið,“ segir Ólafur Ragnar og bætir við að útsýnið hafi verið ótrúlega fallegt.

Að sögn Matthíasar heldur nú sumarfríið áfram en fjölskyldan er á ferðalagi á Austurlandi.

„Börnin geta verið mjög kát með þetta og nú þarf bara að melta afrekið,“ segir Matthías og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert