Safna fyrir starfsemi Villikatta

Dýraverndunarfélagið Villikettir safnar fyrir kattaathvarfi í Reykjavíkurmaraþoni. Standa þau fyrir …
Dýraverndunarfélagið Villikettir safnar fyrir kattaathvarfi í Reykjavíkurmaraþoni. Standa þau fyrir stóru verkefni á suðurlandi þar sem þau hafa tekið um 30 ketti af sveitabæ. Ljósmynd/Facebook

Dýraverndunarfélagið Villikettir stendur fyrir stóru verkefni á Suðurlandi þar sem þau hafa tekið fjölda kettlingafullra læða og kettlinga. Fjórtán manns ætla að hlaupa til styrktar félaginu í Reykjavíkurmaraþoni og safna fyrir kattaathvarfi. 

Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, formaður Villikatta, segir að kettirnir hafi safnast saman á sveitabæ þar sem þeim hefur verið gefið að borða. „Þetta byrjar eins og alltaf á einum eða tveimur,“ en nú eru þau búin að taka um 30 ketti og eru þá ekki allir komnir. 

Margir kettlinganna höfðu troðið sér undir á vonda staði og …
Margir kettlinganna höfðu troðið sér undir á vonda staði og eru þeir því allir meira eða minna með augnsýkingar sem þarf að meðhöndla. Ljósmynd/Facebook

„Þetta eru aðallega læður og kettlingar sem við tókum. Við verðum alltaf að taka læðurnar með kettlingunum því þeir eru svo ungir,“ segir Arndís en þau vinna nú við að hjúkra þeim og sjá til þess að kettlingarnir hafi öruggt umhverfi áður en þau reyna að finna þeim heimili.

 „Við þurftum að taka alla í búr og svo voru æfingar með háfa og fleira til að ná litlu kettlingunum,“ segir Arndís og bætir við að margir kettlinganna höfðu troðið sér undir á vonda staði og eru þeir því allir meira eða minna með augnsýkingar sem þarf að meðhöndla.

Safna fyrir kattaathvarfi

Er þetta í þriðja sinn sem félagið tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoni og segir Arndís að þátttakan vaxi með hverju árinu. Í ár hlaupa 14 einstaklingar til styrktar Villiköttum og hafa þau safnað 99.000 krónum hingað til.

Í  ár leggur félagið áherslu á að safna peningum í húsnæðiskaupasjóð en þörfin fyrir húsnæði hefur aukist töluvert síðustu ár. „Nú erum við með fullt af fósturheimilum og vinnum svolítið eins og Dýrahjálp,“ segir Arndís. Eru þau með um 65 fullorðna ketti á fósturheimilum auk um 60 kettlinga sem leita nýs heimilis.

„Við þurfum húsnæði þar sem við getum tekið á móti öllum læðum og kettlingum og litlum kettlingum sem finnast úti og enginn veit hver á."

Í ár safnar félagið fyrir kattaathvarfi þar sem þau geta …
Í ár safnar félagið fyrir kattaathvarfi þar sem þau geta tekið á móti villtum læðum og kettlingunum þeirra. Ljósmynd/Facebook

„Gætum ekki gert þetta starf án allra sjálfboðaliðanna“

Allir sem vinna hjá félaginu eru sjálfboðaliðar og félagið gerir allt á eigin reikning segir Arndís. „Núna erum við komin með sjálfboðaliða næstum út um allt land.“ Auk þess eru þau í góðu samstarfi við dýralækna á landinu.

Hún bætir við að um 60 virkir sjálfboðaliðar vinni hjá félaginu sem hjálpa til við aðgerðir og bjóða fram heimili sín til þess að taka á móti köttunum þar til þeir fá ný heimili. „Við gætum ekki gert þetta starf án allra sjálfboðaliðanna.“

Arndís ítrekar mikilvægi þess að gelda alla ketti til þess …
Arndís ítrekar mikilvægi þess að gelda alla ketti til þess að koma í veg fyrir að þeir fjölgi sér. Þannig sé hægt að fækka villiköttum á mannúðlegan hátt. Ljósmynd/Facebook

Sporna við fjölgun villikatta

Í þessari aðgerð á Suðurlandi á dögunum tók félagið um 30 ketti, þar af 8 læður sem er með um fjóra til fimm kettlinga hver. Arndís segir að ef ekkert hafi verið gert gætu þeir hafa fjölgað sér í um 300 eftir rúmt ár.

„Það skiptir svo miklu máli að ná þeim strax,“ segir hún en félagið vinnur að því að gelda alla kettina til þess að koma í veg fyrir að þeir fjölgi sér frekar. Þannig sé hægt að fækka villiköttum á mannúðlegan hátt.

Hægt er að styrkja Villiketti í Reykjavíkurmaraþoni inni á Hlaupastyrkur.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert